141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

nauðasamningar þrotabúa föllnu bankanna og útgreiðslur gjaldeyris.

[16:42]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér nauðasamninga þrotabús föllnu bankanna og útgreiðslu gjaldeyris. Það er Seðlabankinn sem hefur mest um það að segja með hvaða hætti útgreiðslur úr þrotabúum föllnu bankanna er háttað til þess að tryggja megi sem best fjármálastöðugleika í landinu. Það er ekki á valdi Seðlabankans að vinna að nauðasamningum heldur slitastjórna föllnu bankanna. Sterk rök hafa komið fram um að það kynni að veikja samningsstöðu landsins ef nauðasamningar gengju fram. Seðlabankinn hefur unnið með fjárfestingarleið, útgöngugjald og skuldabréfaviðskipti til að draga úr þrýstingi á gjaldeyrishöftin án þess að raska stöðugleika í fjármálakerfinu. Frá því að gjaldeyrishöftin komu til sögunnar hefur erlendum aðilum verið heimilað að kaupa erlendan gjaldeyri fyrir krónur sem til falla vegna vaxta, verðbóta og arðs og samningsbundinna afborgana og flytja féð úr landi. En við verðum að láta hagsmuni erlendra kröfuhafa og íslenska þjóðarbúsins fara saman þegar unnið er að uppgjöri við kröfuhafana.

Gjaldeyrishöftin hafa verið öllum erfið. Það reynist þjóðinni sífellt erfiðara eftir því sem við þurfum að búa við þau lengur. En það gæti líka reynst Íslandi dýrkeypt ef afnám gjaldeyrishaftanna er ekki framkvæmt með þjóðarhagsmuni og stöðugleika að leiðarljósi. Það er ljóst að erlendir kröfuhafar fylgjast grannt með þróun mála hér á landi og gæti það leitt til kollsteypu á nýjan leik ef gengið er óvarlega fram í þessum málum. Þess vegna tel ég að allir þeir sem hlut eiga að máli verði að stíga varlega til jarðar og hugsa um fjármálastöðugleikann innan lands því að öðruvísi getum við ekki afnumið höftin með neinum hætti.