141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

nauðasamningar þrotabúa föllnu bankanna og útgreiðslur gjaldeyris.

[16:44]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Forseti. Ég vil að byrja á að þakka sérstaklega fyrir umræðuna. Það er mikilvægt að ræða þessi mál og fá tækifæri til þess þótt ekki gefist nema hálftími til þess. Hreyfingin hefur reyndar talað um þetta mál síðan 2009, reyndar ekki nákvæmlega eins og efnið er mótað hér, en þá mátti eiginlega ekki ræða það að skuldir Íslands væru ósjálfbærar og ógreiðanlegar. Það var tabú. Því fylgdi skömm að viðurkenna í hvaða stöðu við værum.

Þetta eru stærstu málin sem við stöndum frammi fyrir, þ.e. snjóhengjan, gjaldeyrir sem leitar út og aflétting haftanna. Það er stærsta sameiginlega hagsmunamálið okkar og við verðum öll að taka höndum saman ef við ætlum að leysa það verkefni. Þess vegna fannst mér sérstaklega gott að heyra hvað fjármálaráðherra lagði mikla áherslu á að allir kæmu að borðinu. Við þurfum að læra af Icesave sem var líka stórt sameiginlegt hagsmunamál. Við unnum þar með allt öðrum hætti. Við skulum ekki endurtaka þau mistök.

Hér hefur verið nefnd þverpólitísk nefnd sem verið hefur samstiga í þessu máli og komist að sameiginlegri niðurstöðu. Þær tillögur sem ég hef séð hana leggja fram hafa mér fundist góðar, en ég held að aðalmálið sé, hvað sem við gerum, að við áttum okkur á því að við erum öll á sama báti.