141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

nauðasamningar þrotabúa föllnu bankanna og útgreiðslur gjaldeyris.

[16:53]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin við fyrirspurnum hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar og sérstaklega vil ég taka undir þær áherslur sem hæstv. ráðherra hafði um mikilvægi pólitískrar samstöðu í þessum efnum. Það er ekki bara sameiginlegt markmið ríkisstjórnarflokkanna, heldur allra hér í þinginu að losa um gjaldeyrishöftin eða fjármagnshöftin eins fljótt og mögulegt er. Leiðin sem hefur verið farin er einmitt leiðin að vanda sig eins og hv. þingmaður nefndi og fara varlega í sakir. Hún hefur reynst ágætlega. Útboðsleið Seðlabankans hefur þrátt fyrir allt skilað þeim árangri að snjóhengjan hefur minnkað um 170 milljarða kr. og er nú komin niður í um 400 milljarða kr. sem eru þó enn fastar hér í hagkerfinu.

Ef losað væri um höftin einn, tveir og þrír vita allir að það gæti haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir hagsmuni heimila og fyrirtækja í landinu, það gæti stefnt fjármálastöðugleika landsins í voða. Uppgjör þrotabúa gömlu bankanna geta þar skipt verulegu máli, því að eins og hér hefur verið upplýst gæti snjóhengjan, sem við gjarnan köllum svo, vaxið um rúma 200 milljarða kr. á nýjan leik vegna uppgjörs þeirra og orðið aftur um 600 milljarðar kr.

Þetta er málið í hnotskurn. Þetta er stærð verkefnisins. Það verkefni að losa um höftin snýst um að verja íslenska hagsmuni, hagsmuni heimila og fyrirtækja í landinu og taka ekki bara mið af skilyrðum hér innan lands og sérhagsmunum hinna erlendu kröfuhafa heldur einnig af stöðu heimilanna í landinu. En við verðum líka að horfa til þróunar á erlendum mörkuðum sem hefur kannski ekki verið eins hagstæð og menn vildu vona.

Ég legg áherslu á það að áður en undanþágur eru veittar frá gjaldeyrishöftunum verður að skoða alla þætti og allar mögulegar afleiðingar. Ég tel þær leiðir og umgjörð sem hæstv. ráðherra nefndi áðan varða þann veg mjög vel.