141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:25]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal gefa hv. þingmanni smáforsmekk. Nú liggur fyrir Alþingi nýtt frumvarp um fiskveiðistjórn sem er bara einn angi auðlindanýtingarinnar. En mér finnst reyndar svolítið að skuggann eða bergmálið frá þeirri umræðu sé dálítið mikið að finna í texta stjórnlagaráðsins og að stjórnlagaráðið hafi ekki að mínu mati horft nægilega vítt um vegna þess að náttúruauðlindirnar eru margar og þær eru að sumu leyti ólíkar að inntaki.

Nú vaknar til dæmis strax spurningin: Eru ákvæðin sem við sjáum í þessum texta — sem ég hef ekki tíma til að fara í gegnum — er hann til dæmis algjörlega samrýmanlegur þeim texta sem liggur fyrir í frumvarpi hæstv. sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra? (MT: Það tel ég ekki vera.) Hv. þingmaður telur svo ekki vera og það kemur mér ekki á óvart.

Er sá texti sem liggur fyrir í núgildandi lögum um stjórn fiskveiða samrýmanlegur hinum nýja texta hérna? Mér dettur í hug að hv. þingmaður telji að svo sé ekki. Hefði þá ekki verið gott til dæmis að við færum í gegnum það þegar við erum að ræða um auðlindaákvæðið, með hvaða hætti það mundi síðan hafa áhrif á auðlindalöggjöfina að öðru leyti?

Ég er nokkuð viss um að sum ákvæðin í þessu frumvarpi kunni ekki bara að hafa áhrif á fiskveiðistjórnarlöggjöfina, ég held að ekki síður muni þau hafa áhrif á aðra auðlindanýtingu sem við erum mjög nýlega búin að setja lög um, sem ég held að menn hafi verið í sæmilegri sátt með á sínum tíma. Hefði ekki verið eðlilegt að skoða samspil frumvarpsins sem við erum að ræða núna og þeirrar nýju löggjafar sem við vorum svona sæmilega sátt með held ég flest varðandi auðlindanýtingu, fallvötnin og það allt saman? Það er þetta, virðulegi forseti, sem ég tel svo ofboðslega mikið að í því frumvarpi sem við ræðum núna.