141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:33]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Í fyrsta lagi hlýtur það að vera enn eitt merkið um undarleg vinnubrögð við allt þetta mál að Feneyjanefndin skuli fá til sín gögn eða plagg sem er síðan breytt og önnur gögn og annað plagg lagt fram á þinginu eða í það minnsta eru settar inn tillögur og breytingar en sú nefnd sem á að vera einhvers konar gæðastimpill á yfirferð á frumvarpinu og stjórnarskrá virðist að minnsta kosti ekki hafa verið með nýjustu hugmyndir í höndunum. Við hljótum að gagnrýna það vegna þess að það var jú hlutverk nefndarinnar að fara yfir það sem fyrir lá, ef ég hef skilið þetta rétt.

Síðan vil ég spyrja hv. þingmann út í hvaða viðbrögð þingmaðurinn hafi fengið þegar hann benti á það í velferðarnefnd að hér væri verið að leggja til mögulega grundvallarbreytingar á vinnumarkaðnum eins og við þekkjum hann á Íslandi, þ.e. að hverfa frá hinu norræna módeli sem ríkisstjórnin hefur gjarnan viljað kenna sig við, norræn velferðarstjórn, menn geta svo haft alls konar skoðanir á því hvernig tekist hefur til. Við hljótum að velta því fyrir okkur hvort það sé með ráðnum hug sem lögð er fram breyting sem megi túlka þannig að verið sé að leggja til grundvallarbreytingar á íslenskum vinnumarkaði.

Ég verð að viðurkenna að ég man það ekki og þarf greinilega að rifja það upp hvort aðilar vinnumarkaðarins hafi skilað inn athugasemdum til nefndarinnar og þá við þessa grein sérstaklega. Við þingmenn hljótum að þurfa að rifja það upp ef svo hefur verið. Nú væri gott ef hv. þingmaður man hvernig það var. En í það minnsta hljótum við að kalla eftir því hver viðbrögðin hafi verið þegar þau varnaðarorð voru látin falla, að þarna kynni að vera brotthvarf frá þeim vinnumarkaðsmálum sem við þekkjum að hinni norrænu fyrirmynd.