141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[17:37]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S):

Forseti. Það mál sem liggur hér undir á sér alllanga forsögu, lengri en flest önnur þingmál sem við höfum tekið til umræðu á þessu þingi og er raunar ekkert bundið við þetta eina kjörtímabil sem nú er að renna skeið sitt á enda. Engu að síður hefur það verið mjög fyrirferðarmikið í allri umræðu og störfum þingsins núna um nokkurra vikna skeið þótt vinnan við það hafi legið niðri á vegum þingsins í nokkuð langan tíma, svo furðulegt sem það raunar er.

Ég hallast að því að reyna að ræða málið á þeim forsendum sem ég hef til þess, þ.e. annars vegar út frá fjárlaganefndinni og hins vegar sem þingmaður Norðausturkjördæmis. Ég leyfi mér að fullyrða að það er langt frá því að meiri hluti sé á Alþingi fyrir því að afgreiða frumvarpið eins og það liggur fyrir. Það er alveg augljóst af allri umræðu um málið að það er rekið áfram af tiltölulega litlum hópi þingmanna sem hefur vissulega haldið því merki vel á lofti og barist dyggilega fyrir málinu allt frá síðustu kosningum og raunar fyrr. Þótt ég sé í grundvallaratriðum ósammála þeim um framgang málsins ber vissulega að virða þá atorku sem fólkið sýnir.

Það er skynjan mín, og ég tel fleiri þingmenn hafa þá sömu skoðun og tilfinningu, að mikill minni hluti þingmanna vilji ljúka málinu á þann veg sem er lagt til.

Ég fullyrði að eftirspurnin eftir því að kröftum þingsins sé beint í þann farveg sem við erum í með stjórnarskrá Íslands er engin í þjóðfélaginu, meðal almennra Íslendinga. Það ver þvert á móti kallað eftir allt öðrum þáttum, að Alþingi einbeiti sér mun meira að því að bæta afkomumöguleika fólks. Það er kallað eftir því að Alþingi standi dyggari vörð um grunnþætti þeirrar þjónustu sem Íslendingar hafa byggt upp á síðustu árum svo til fyrirmyndar er og kröftum okkar þykir ekki nægilega vel beint til varnar. Í því sambandi nægir að minna á umræðuna sem hefur staðið um íslenska heilbrigðiskerfið í alllangan tíma þar sem við getum í rauninni horft til þeirra þátta þannig að líkja íslenska heilbrigðiskerfinu við gjörgæslusjúkling sem er í þeirri stöðu að annaðhvort versnar honum eða hann rétt tórir og mun taka langan tíma fyrir hann að hjarna við. Það er ekki bundið við Landspítalann heldur á við heilbrigðisþjónustu um allt land. Ég tel að eftir því sé kallað, að tekið verði á þeim þáttum og kröftum þessa þings beint í þann farveg.

Ég ætla að koma aðeins aftur að því sem ég nefndi um þá skoðun mína að ég teldi mikinn minni hluta þingmanna reka þetta mál áfram, af þó nokkrum krafti sem ber að virða en ég held að aðstæður í þeim hópi hafi breyst töluvert, þ.e. stjórnarliða, frá síðustu kosningum. Það var mikið gert úr því að það yrði að endurskoða stjórnarskrána á sínum tíma og henni kennt um ýmislegt sem miður hefur farið. Ef við lítum á hið pólitíska landslag eftir þau tæpu fjögur ár sem við höfum starfað á þessu þingi núna er það gjörbreytt. Sá flokkur sem gerði þetta að höfuðbaráttumáli sínu fyrir síðustu kosningar, Borgarahreyfingin, klofnaði fljótlega og hefur í rauninni skipt sér á tvo þingflokka. Við sjáum líka að þingmenn í öðrum stjórnarflokkum hafa skipt um skoðun í málinu og reka það ekki áfram af sama krafti og áður. Við sjáum sömuleiðis að traust almennings á íslenskum stjórnvöldum hefur farið hríðlækkandi á undanförnum árum, sérstaklega á síðasta eina og hálfa eða tveimur árum.

Að hluta til má rekja það til þessa máls og þess að stjórnmálamenn á Alþingi Íslendinga í dag skuli ekki ná meiri samstöðu en raun ber vitni um breytingar á grunnlögum sem eiga að vera og standa til að verja réttindi borgaranna. Það er ekki eins og þær athugasemdir komi eingöngu frá almennum borgurum landsins. Við sjáum þær einnig í þeim umsögnum sem stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd bárust við frumvarpið sem hér liggur fyrir, ótölulegur fjöldi athugasemda hefur borist. Við í þingflokki Sjálfstæðisflokksins létum taka þann pakka saman fyrir okkur og allur sá athugasemdafjöldi er raunar með ólíkindum. Mér virðist sem algjörum leikmanni í þessu máli, ég vil undirstrika „sem algjörum leikmanni“, þeir umsagnaraðilar sem þarna tjá sig — sem telja ber þeirrar gerðar að athugasemdir þeirra beri að taka alvarlega, eins og umboðsmaður Alþingis og stjórnskipunarfræðingar sem óþarfi er að nafngreina hér — athugasemdirnar sem þeir gera eru af þeim toga að full ástæða er til að gefa þeim gaum. Ég ætla mönnum að gera það.

Fulltrúar okkar úr þingflokki Sjálfstæðisflokksins í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafa haldið uppi mjög stífum vörnum fyrir stjórnarskrána. Þeir vilja fara gætilega og hafa ítrekað bent á að ekki hafi verið tekið nægilega mikið tillit til þeirra athugasemda sem gerðar hafa verið. Ég treysti því ágæta fólki vel til þess að halda þeim málstað á lofti.

Ég vil sjálfur nefna það sem dæmi um verklagið að fjárlaganefnd fékk erindi frá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd um að veita umsögn um þær greinar sem voru í frumvarpinu og snertu verksvið fjárlaganefndar. Við fulltrúar stjórnarandstöðunnar í þeirri nefnd óskuðum eftir því að fá tækifæri til að kalla til okkur fróðari menn um stjórnskipun og áhrif tillögugreinanna á núgildandi ákvæði stjórnarskrár. Það var einfaldlega afgreitt þannig af hálfu meiri hluta fjárlaganefndar að gestir voru ekki kallaðir fyrir nefndina til upplýsingagjafar eða skoðanaskipta. Maður er því kannski ekki í góðum færum til að tjá sig um þau atriði sem beinlínis lúta að verkefnunum sem hafa verið falin fjárlaganefndinni.

Ég hef oft og tíðum haldið því fram varðandi mál sem við höfum rætt í þinginu og snerta verksvið fjárlaganefndar að iðulega færi betur að lagafrumvörp væru rýnd betur, bæði á undirbúningsstigi og áður en að endanlegri framlagningu þeirra kemur fyrir þingið. Í umræðum um lagafrumvörp sem hafa verið hér til umfjöllunar hef ég oftar ekki kallað eftir og vísað til þeirrar handbókar sem forsætisráðuneytið hefur látið semja og varðar undirbúning og gerð lagafrumvarpa. Þar er á ferðinni mjög merkileg tilraun til að leggja áherslu á að Alþingi fái í hendur vel grunduð frumvörp sem ætlað er að verða að lögum. Í þeim athugasemdabunka hef ég meðal annars séð ítrekaðar athugasemdir um að skortur sé á því og þess sé sárt saknað að við þetta frumvarp til breytinga á stjórnarskrá Íslands hafi ekki verið unnið heildstætt mat á þeim langtímaáhrifum sem stjórnarskrárfrumvarpið hefur á hin ýmsu svið þjóðlífsins.

Ég hef heyrt samtök á vinnumarkaði halda því fram. Ég hef heyrt einstaka lögfræðinga halda því fram þegar ég hef haft tækifæri til að sækja ráðstefnur um stjórnarskrána, m.a. í Háskólanum í Reykjavík sem hefur tekið þátt í samstarfi með öðrum háskólum um þau efni. Sá lögfræðingur sem tjáði sig þar og gerði mjög ítarlega grein fyrir afstöðu sinni heitir Kristrún Heimisdóttir og gerði hún það afskaplega skýrt. Það er kallað eftir þessu mati en það er engu að síður ekki unnið. Það liggur ekki fyrir þrátt fyrir að í frumvarpinu sem við höfum hér til meðferðar séu lagðar til gagngerar breytingar á stjórnskipun landsins, ég nefni sem eitt dæmi kjördæmaskipan eða kosningakerfi en ég ætla að koma örlítið að því í ræðu minni síðar. Það er hvorki lagt mat á áhrif einstakra greina og áhrif þeirra breytinga sem eru lagðar til þar né á frumvarpið í heild.

Ef við viljum ástunda það að mæta þeim óskum ætti slíkt mat að sjálfsögðu að fara fram þó svo ég sé ekki í neinum færum til að koma fram með einhverjar tillögur um hver ætti að vinna það. Ég veit þó að það náðist ágæt samstaða um að senda ákveðinn hluta þessa máls til umsagnar hjá Feneyjanefndinni svokölluðu. Þar var ekki um að ræða heildstætt mat heldur einungis tiltekinn hluta þess verkefnis sem liggur fyrir.

Það er raunar umhugsunarefni hvernig menn ætla að taka á þeim athugasemdum sem kunna að vera þar á ferðinni. Ég tek heils hugar undir þau sjónarmið formanns stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem komu fram í máli hennar, að henni þætti við hæfi að umræða um það álit hæfist ekki fyrr en þýðing þess lægi fyrir á íslensku. Ég tek heils hugar undir þau sjónarmið en hefði talið eðlilegra að okkur gæfist kostur á því að fara yfir það á íslensku áður en við hæfum umræðuna því væntanlega gæti það gefið okkur tilefni til að skynsamlegri eða dýpri umræðu svo sem eftir er kallað.

Ég rak einnig augun í, og það vakti athygli mína, að umboðsmaður Alþingis tekur undir þau sjónarmið sem sérfræðingahópurinn setti fram um að nauðsynlegt væri að heildstætt og skipulegt mat á áhrifum frumvarpsins í heild færi fram. Það væri mjög fróðlegt ef það skýrðist í umræðunni hvort ætlunin væri að fara eftir því eða mæta þeim óskum sem hafa verið settar fram.

Þó ekki væri nema fyrir það eina atriði sem ég nefndi áðan og gerði að umtalsefni og snertir verkefni fjárlaganefndar Alþingis, er mjög fróðlegt að sjá athugasemd sem kemur frá umboðsmanni Alþingis og lýtur að þeim þætti. Hann orðar það einhvern veginn svo í athugasemd sinni að nauðsynlegt sé að greina þær skyldur sem leiða af frumvarpinu og breytingum á gildandi löggjöf, sérstaklega þær sem snúa að fjárhagslegum áhrifum þess á t.d. útgjöld ríkissjóðs og sveitarfélaga. Hann virðist í umsögn sinni hafa rekist á tiltekna þætti sem hann telur nauðsynlegt að gera slíka greiningu á og telur í rauninni að greiningin kunni að leiða til þess að þörf sé á skýrari ákvæðum í stjórnarskrá til að ná fram þeim markmiðum sem eru sett fram þar.

Nú kann ég ekki skil á athugasemdum umboðsmanns Alþingis í neinum smáatriðum en vænti þess að fulltrúar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd hafi farið yfir þær þótt mér sé ekki kunnugt um það. Ég hef í það minnsta heyrt á þeim fulltrúum sem ég gat um áðan, hv. þingmönnum Birgi Ármannssyni og Ólöfu Nordal, að þau sakni þess að slík greining hafi ekki verið unnin.

Það er í sjálfu sér kannski ekkert skrýtið ef við höfum það ástand í huga sem er í rauninni í sölum þingsins í hverju málinu á fætur öðru. Það var miður skemmtileg umræða í þinginu áðan um fundarstjórn forseta þar sem þingmenn voru að karpa um vinnubrögð við afgreiðslu einnar tiltekinnar nefndar um frumvarp að breyttri fiskveiðilöggjöf. Án þess að ég sé að dæma þá umræðu á nokkurn annan hátt en þann að segja að hún sé miður æskileg verður hún engu að síður til á grundvelli þess hvernig við störfum. Það er til dæmis eitt atriði við það mál sem ég get alveg tengt þessum óskum, athugasemdum sem komu fram við vinnuna í málinu um löggjöf um breytta stjórnskipun. Í málinu sjálfu eða frumvarpinu sem var til umræðu í gær kemur fram að þrátt fyrir að það sé mál ríkisstjórnarinnar stangast þau áform algjörlega á sem eru í frumvarpinu og mati sem einstök ráðuneyti setja síðan fram í umsögn sinni með því. Ég tel það ekki boðleg vinnubrögð og tel að við eigum að reyna að forðast það að vinna að lagasetningu þannig að ekki einu sinni framkvæmdarvaldið sem útbýr löggjöfina fyrir þingið getur komið sér saman um hlutina áður en þeir eru lagðir fram. Það eru í mínum huga alls ekki boðleg vinnubrögð. Raunar er sú umsögn frá fjármálaráðuneytinu sem fylgdi frumvarpinu um ný lög um stjórn fiskveiða gríðarlega harðorð og með ólíkindum að málið skuli hafa gengið fram með þá umsögn í farteskinu.

Ég vil víkja örlítið að umræðu um kosningahlutann í frumvarpinu en ég gerði það að umtalsefni í ræðu minni þegar málið kom fyrst til umræðu fyrir áramót, ég man ekki nákvæmlega hvenær það var ætlunin að landið yrði gert að einu kjördæmi eins og það var orðað. Ég er í grundvallaratriðum ósáttur við þá hugmynd. Eins og breytingartillagan frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar við 39. gr. hljóðar sé ég í raun ekki hvernig menn ætla að fara í það að breyta kosningakerfinu, þ.e. ég hef ekki mynd af því hvernig þetta kemur til með að líta út. Þó held ég að það megi draga þá afdráttarlausu ályktun að eins og tillagan hljóðar er grunnreglan sú að landið sé eitt kjördæmi. Af hverju segi ég það? Vegna þess að breytingartillagan hljóðar þannig að heimilt sé að skipta landinu upp í kjördæmi. Ef þarf að gefa slíka heimild hljóta menn að horfa á landið sem eitt kjördæmi. Landið er eitt kjördæmi en það þarf þá heimild til að skipta því upp í kjördæmi. Ég skil þá setningu svona.

Það kann vel að vera að meiningin sé allt önnur. Ég sé það á höfði þeirra ágætu þingmanna sem hlýða á mál mitt hér að þeir leggja annan skilning í orðalagið og það væri þá fróðlegt, ánægjulegt og athyglisvert að hlýða á skýringar þeirra varðandi þann þátt.

Ef ég nálgast þetta mál með öðrum hætti var það mjög skýrt í frumvarpinu eins og það var að landið skyldi vera eitt kjördæmi. Eins og það lítur út núna finnst mér það vera kraðak af hugmyndum. Útfærslan er öll eftir og niðurstaðan var kannski sú í umræðu meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að allt það sem var óþægilegt væri einfaldlega tekið út, allar þær hugmyndir settar inn sem hafa verið á floti og ætlunin sú að setja löggjafann í þá stöðu að búa til almenn kosningalög út frá þeim hugmyndum sem eru settar í breytingartillöguna og er ætlað að fara í stjórnarskrá Íslands.

Ég geri þá kröfu sem þingmaður í norðaustri að myndin sé skýr fyrir mér og ég geti borið hana fram fyrir umbjóðendur mína í Norðausturkjördæmi, að stjórnarskrá Íslands segi fólki sem hefur kosið sér búsetu þar hversu marga fulltrúa það geti átt von á að eiga á Alþingi Íslendinga. Ég heyri hvergi annað en að íbúar í því kjördæmi sem ég lifi í, bý og starfa í, geri kröfu um annað en að hafa vitneskju um hversu marga fulltrúa þeir geti átt á þessari háæruverðugu og heilögu samkomu. Það er útilokað fyrir þá að lesa það út úr gögnunum sem liggja fyrir.

Af þeirri ástæðu get ég afdráttarlaust krafist svara frá meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar við því hvort undirliggjandi hugmynd í breytingartillögunni sé sú að landið sé eitt kjördæmi og það þurfi sérstök heimildarákvæði í almennum lögum til að skipta því upp í kjördæmi. Það verður gott að fá svör við því á eftir.

Svo verð ég að játa að ég sé ekki almennilega hvernig allt saman á að ganga upp. Ég hef ekki setið í nefndinni og þekki ekki hvernig umræðan í henni hefur verið, en mér sýnist þetta vera kraðak af alls konar hugmyndum sem eru listaðar upp þarna og svo sé ætlunin sú að búa til sérstök kosningalög sem taki á þeim þáttum sem eru eftir, þ.e. vinnan er eftir. Svo segir í breytingartillögu meiri hluta nefndarinnar við 39. gr., með leyfi forseta:

„Breytingar á kjördæmamörkum, tilhögun á úthlutun þingsæta og reglum um framboð, sem fyrir er mælt í lögum, verða aðeins gerðar með samþykki 2/3 hluta atkvæða á Alþingi. Slíkar lagabreytingar má ekki gera ef minna en eitt ár er til kosninga, og gildistaka þeirra skal frestast ef boðað er til kosninga innan eins árs frá staðfestingu þeirra. Nánari reglur um alþingiskosningar skulu settar í lögum.“

Eins og þetta er orðað gefur það til kynna að til að gera breytingar á núgildandi kosningalögum þurfi 2/3 hluta eða aukinn meiri hluta á Alþingi. Er það svo? Ég hef efasemdir um að svo sé. Ég hef skilið umræður félaga minn sem hafa reynt að setja sig inn í það flókna mál þannig að bráðabirgðaákvæðið í tillögum meiri hluta stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar heimili það að vegna kosninganna 2017, sem kynnu að verða ef kjörtímabilið gengur óbrjálað, sé heimilt með einföldum meiri hluta atkvæða á Alþingi Íslendinga að setja ný kosningalög. Er það réttur skilningur? Ég vona að svo sé ekki því að það er í mínum huga glapræði og algjör ósvinna að setja fram tillögur til breytinga á kosningum til Alþingis þannig að ætla það að einhver þokkalega velviljaður einstaklingur á þessari ágætu samkomu á Alþingi muni sættast á að breyta lögum um kosningar til Alþingis með einföldum meiri hluta á Alþingi. Það tel ég vera glapræði og ekki til neinnar sáttar fundið með því einu sinni að gera tilraun til að fara fram með slíkt.

Það er vissulega svo að skipting landsins í kjördæmi hefur alla tíð verið umdeild og verður það. Það er ósköp eðlilegt að ójafnt vægi atkvæða sé þyrnir í augum kjósenda á þéttbýlli svæðum. Það er ekkert óeðlilegt við þá skoðun en ég tel engu að síður út frá því hvernig við höfum skipað málum okkar hér á landi að hægt sé að rökstyðja það fyllilega að öll landsvæði eigi skilyrðislaust að hafa lögskipaðan aðgang að þeirri samkomu. Það er okkar að finna út úr því hvernig við viljum koma þeim hlutum á. Sú aðferð sem er í boði hugnast mér ekki á neinn hátt, sérstaklega ekki ef við eigum að leiða það inn eins og ég gat um áðan. Þá er það einfaldlega staða sem ég trúi raunar ekki að almennir stjórnarþingmenn vilji halda á lofti.

Það leiðir hugann að því hvernig ég byrjaði ræðu mína sem var á þeirri sátt sem ég tel að þurfi að ríkja um það plagg sem stjórnarskrá Íslands er. Það er ekki meirihlutastjórn í landinu heldur minnihlutastjórn sem styðst við stuðning nýrra þingflokka sem voru myndaðir einhvern tímann á liðnu kjörtímabili. Við vitum öll, þótt það sé ekki rætt mikið upphátt, að ástæðan fyrir því að ekki er komin fram vantrauststillaga á þá minnihlutastjórn eru áherslur frá öðrum þessara flokka. Hvaða mál veldur því að svo er? Það er málið sem við erum að ræða. Það er úrslitamál.

Dettur einhverjum í hug að minnihlutastjórn sem vinnur eins og raun ber vitni í þessu máli muni hafa færi til þess, þótt hún væri öll af vilja gerð, að skapa einhverja sátt um þetta grundvallarmál? Verkin sýna það ekki. Því miður fyrir alla aðila málsins er það markað fremur klaufalegum gangi alveg frá upphafi og síðan er það markað harðvítugum deilum um innihald þess. Það er ekki góður stofn í löggjöf sem lýtur að grunnlögum landsins og ætlað að mikil sátt ríki um. Það er ekki tilefni til góðrar samkomu, góðs samkomulags og vandaðrar vinnu að mínu mati. Illindi um stjórnarskrána ættu ekki að heyrast í þrátefli þingmanna um það mikilvæga mál. Okkur væri meiri sómi að því að setjast niður í rólegheitum og reyna að jafna þann ágreining sem er uppi í stað þess að bjóða almenningi í landinu upp á vinnulagið sem er á ferðinni hér.

Engu að síður er boðið upp í þennan dans og þá skal hann stiginn sama þótt menn traðki á tánum hver á öðrum. Ég hef ekki mælt fyrir slíku háttalagi og hef í rauninni ekki mikinn áhuga á því. Ég hvet alla sem ráða þessum málum, hvar í flokki sem þeir standa, til að taka á sig rögg, setjast niður og semja skynsamlega um það hvernig við viljum koma umræðu um stjórnarskrá Íslands út úr þeim farvegi sem hún er komin í. Það mundu margir þakka fyrir það verk ef Alþingi einhenti sér í þá vinnu. En sú samkoma sem er boðið upp á hér er stjórnskipan Íslands, stjórnarskrá Íslands, ekki samboðin.

Það kann vel að vera að mönnum þyki það hörð orð en ég segi þá taki þeir það til sín sem eiga. Ég ætla ekki að harma það mikið við þá heldur hvetja þá til að koma sér að verki, setjast niður, loka að sér og standa ekki upp eða koma út úr því herbergi fyrr en þeir hafa komist til ráðs.

Það kann vel að vera að það sé ekki vinnandi vegur. Til þess er tortryggnin milli aðila í landinu orðin allt of mikil, til þess er búið að leggja allt of mikið undir í málinu af hálfu þeirra sem harðast hafa rekið á eftir. Það verður einfaldlega að taka þann slag við þá sem kjósa að haga málum þannig.

Mér þykir það sárt, ég skal viðurkenna það, að á þeim tíma sem ótal mál brenna á landsmönnum skuli menn vera að karpa hér og reyna að búa til einhverja lagaumgjörð sem að flestra mati er ófullburða. Við væntum þess að það myndaðist ákveðin sátt um þá vegferð sem lagt var af stað í þegar málinu var skotið til hinnar svokölluðu Feneyjanefndar sem átti að gefa okkur, í þessari vegferð okkar, vandaða og heiðarlega umsögn. Nú eru komin drög að þeirri umsögn. Endanleg afgreiðsla Feneyjanefndarinnar kemur ekki fyrr en 8. mars, ef ég veit rétt. Þrátt fyrir að sú staðreyndir liggi fyrir, þrátt fyrir alls konar varnaðarorð, láta menn engu að síður svo í umræðunni sem er hafin eins og það eigi ekkert að gera með þær athugasemdir sem þar koma fram. Því segi ég: Hvernig dirfist sá hv. þingmaður sem hér stendur að segja að það eigi ekkert að gera með þær athugasemdir? Jú, ástæðan er sú að miðað við þá orðræðu sem er haldið uppi á að klára málið skilyrðislaust. Ef það á að gerast þýðir það um leið að Alþingi Íslendinga ætlar ekki að taka alvarlega þær ábendingar sem það kann að fá frá Feneyjanefndinni, ætlar ekki að setjast yfir þær, kryfja þær til mergjar og koma málinu í skynsamlegan búning. Allir fræðimenn á þessu sviði telja og hafa sett fram skoðanir sínar í þá veru að okkur beri að gefa þessu rýmri tíma.

Að því sögðu vil ég ítreka þá skoðun mína að við eigum að sammælast um að reyna að búa þann tíma til. Í mínum huga eru lok þessa kjörtímabils enginn þröskuldur í þá veru. Ég tel að við eigum ekki að láta það vera hindrun í vegi þess að við náum saman um þetta málefni.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um málið að sinni. Ég vil að endingu hvetja menn til að reyna að koma því upp úr þeim farvegi sem því hefur verið grafinn að ósekju að mínu mati og er engum til sóma. Ég tel að við höfum full færi til að koma málinu upp úr skotgröfunum, upp úr þessu hjólfari. En þó ekki og aldrei undir þeim formerkjum að menn ætli að ganga þá götu til enda og ætla sér það verk að ljúka því á þessu þingi að setja landinu nýja stjórnarskrá eins og frumvarpið gefur tilefni til. Það er óboðlegt og við munum ekki undir neinum kringumstæðum una þeirri niðurstöðu. Það er ekki vönduð vinna. Við sjálfstæðismenn munum berjast hart gegn því hvar og hvenær sem við getum að kastað sé til höndunum við þetta verkefni eins og stefnir í hér.