141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:17]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni fyrir yfirferð hans hér áðan. Mig langaði að hnykkja enn frekar á því sem fram kom í andsvörum við formann stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar varðandi 39. gr. Mér finnst satt að segja að nokkuð einbeittan vilja þurfi til að vilja túlka það á þann hátt sem hv. þingmaður gerir, að hér sé gengið út frá því að við horfum á landið sem eitt kjördæmi. Þessi breyting, sem er mjög viðamikil breyting á greininni, eins og kemur í ljós hér við 2. umr., er sett fram vegna þeirrar hörðu gagnrýni sem sett var fram á það að verið væri að njörva kosningakerfið niður, nánast frá A til Ö, í upphaflegri tillögu. Menn vildu skapa víðara svigrúm og gefa þinginu tækifæri til þess að ná samstöðu um það í útfærslunni án þess að það væri bundið í stjórnarskránni. Það er verið að opna á útfærslu á þessu atriði út frá þeim grunngildum sem sett eru fram (Forseti hringir.) um jöfnun í atkvæðisrétti, um heimildir til að fara í persónukjör með mismunandi útfærslum eins og menn kjósa, (Forseti hringir.) og að það sé opið fyrir því hversu kjördæmin eru þá mörg.