141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:19]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, það er alls ekki þannig að hér sé allt undir. Það er verið að opna þetta mjög vítt en lagðar eru ákveðnar reglur og forsendur og rammi fyrir því á hvaða grunni kosningalögin verða, þ.e. þingið hefur val um það hvort kjördæmin séu sex eða átta eða tíu eða hvað annað. Það er ekki hægt að lesa út úr þessu — og það mun þá koma skýrt fram í greinargerð — að verið sé að leggja til að landið sé eitt kjördæmi. Verið er að opna á það að menn hafi svigrúm til að útfæra persónukjör eins og menn telja skynsamlegt og verið að leggja áherslu á að mæta þeim sjónarmiðum, m.a. frá Feneyjanefndinni, að jöfnun atkvæðisréttar sé eins og kostur er, og það er farið vægar í það.

En einfaldi meiri hlutinn — ég get ekki skilið þetta ákvæði á þann veg. Ef menn vilja lesa út úr því eins og hv. þingmaður hefur talað um hér tel ég fulla ástæðu til þess að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fái tækifæri til að fara betur yfir það og ítreka að það sé ekki hugsað á þann veg sem hann hefur lagt fram í ræðu sinni.