141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:23]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Það er rétt hjá hv. þingmanni að við leggjum mismunandi skilning í þessa einu setningu. Það kann vel að vera að núgildandi ákvæði stjórnarskrárinnar byrgi okkur dálítið sýn í þessu vegna þess að þar stendur einfaldlega að kjördæmin skuli vera fæst sex en flest sjö. Það er sem sagt kveðið á um það í núgildandi stjórnarskrá lýðveldisins Íslands hvernig kjördæmaskipanin skuli vera.

Í þessari breytingartillögu er verið að leggja til að heimilt sé að skipta landinu í kjördæmi. Það er orðalag sem ég skil á annan hátt en sumir þeir sem hér hafa tjáð sig og það er orðalag sem ég fellst ekki á. Ég vil hafa þetta skýrara og tel einboðið að Alþingi Íslendinga ákveði þetta og setji það sem tillögu sína, ef á annað borð á að ganga svo langt, inn í stjórnarskrá landsins.