141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:24]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég leyfi mér að skilja þetta á sama hátt og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson, þ.e. að umrædd setning, að heimilt sé að skipta landinu upp í kjördæmi, sé víkjandi og að hin almenna regla eigi að vera sú að landið sé eitt kjördæmi, að það sé það sem þessar stjórnarskrártillögur gera ráð fyrir en hitt sé heimildarákvæði.

Ég er í sjálfu sér algjörlega ósammála því. Ég tel að það eigi að vera kveðið á um að landinu skuli skipt upp í kjördæmi. En það skiptir þó mestu máli að stjórnarskrárákvæði sem að þessu lýtur sé þá skýrt, og það er það engan veginn hér. Enda er það nú svo að afar fáir fulltrúar, tveir eða þrír, á stjórnlagaþingi, þegar kosið var til þess, áttu lögheimili á landsbyggðinni. Einmitt þessi nálgun málsins (Forseti hringir.) finnst mér vera með þeim hætti að sjónarmið landsbyggðar fái ekki (Forseti hringir.) að koma fram með eðlilegum hætti eða njóta sín, heldur á hinn veginn.