141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:27]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég óttast ekkert sérstaklega jöfnun atkvæðisréttar þó að ég komi úr sama kjördæmi og hv. þm. Kristján Þór Júlíusson. Ég get hins vegar tekið undir það með honum að það þurfa margar raddir að heyrast og ólíkar raddir, líka raddir kjördæmanna og það þarf auðvitað að virða þann stóra minni hluta sem lagðist gegn þessu með einhverjum hætti. En hins vegar er heimsmynd okkar svo býsna miklu flóknari en svo að við hv. þm. Kristján Þór Júlíusson séum fyrst Akureyringar og svo Eyfirðingar og svo Íslendingar. Við erum ýmislegt annað líka, við erum jafnaðarmenn, við erum íhaldsmenn og við getum raðað þessu í ólíkar raðir.

Ég held að flokkarnir muni alltaf bera gæfu til þess að endurspegla sem flest sjónarmið í framboði sínu vegna þess að annars ná þeir ekki árangri. Ég hef því engar áhyggjur þó að við bindum það ekki fast við kjördæmin. Gerir það hv. þm. Kristján Möller að meiri landsbyggðarmanni að hann skuli hafa heimilisfesti á Siglufirði (Forseti hringir.) og hv. þm. Sigmund Erni Rúnarsson að minni landsbyggðarmanni að hann skuli hafa lögheimili sitt uppi í Grafarvogi? Ég held ekki.