141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:30]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Forseti. Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni að ég treysti stjórnmálaflokkunum til þess að raða upp sínu fólki. Þegar ég er að tala um hópa er ég að tala um fólk í kjördæmum, ekki endilega fulltrúa tiltekinna hagsmunahópa, ég er að tala um hópa einstaklinga úti í kjördæmum.

Ég hef skýran fyrirvara á því sem hér er sett fram eins og því sem tilgreint er í þessari breytingartillögu við 39. gr., sem hljóðar svo:

„Listar eru boðnir fram í kjördæmum. Þeir mega vera óraðaðir eða raðaðir samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum. Frambjóðandi má vera á fleiri en einum lista sömu stjórnmálasamtaka.“

Ég hef allan fyrirvara á þessu og tel skaðræði að binda svona lagað í stjórnarskrá að óathuguðu máli.