141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:31]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Það er ástæða til að þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér fer fram um stjórnarskrána og kannski ekki síst núna þessa dagana eftir að álit Feneyjanefndarinnar barst þinginu um stöðu málsins og er að mörgu leyti skemmtilegt að heyra þá umræðu. Þar er því meðal annars haldið á lofti að mikilvægt sé að sátt sé um stjórnarskrána. Þar er einnig lögð áhersla á að ekki megi ríkja óvissa um túlkun hennar. Sömuleiðis sjá ýmsir aðilar ýmsa galla á því frumvarpi sem fyrir liggur. Þá er mikilvægt fyrir þá sem hlýða á þá umræðu að hafa í huga hver núverandi staða er.

Núverandi staða málsins er einfaldlega sú að það er engin sátt um gildandi stjórnarskrá lýðveldisins. Núverandi staða er sú að það er óvissa um túlkun á stjórnarskrá lýðveldisins og býsna veigamikil atriði í núverandi stjórnarskrá lýðveldisins eins og hendingar síðustu missira og ára bera með sér og umræður fyrir síðustu forsetakosningar um merkingu einstakra atriða í gildandi stjórnarskrá bera glöggt vitni um. Sömuleiðis finna fjölmargir ýmsa galla á gildandi stjórnarskrá enda er það nú eðli málsins samkvæmt þannig að stjórnarskipunarlög eins lands munu aldrei mæta öllum sjónarmiðum allra, um þau mun alltaf vera óvissa að einhverju marki og einhverjir munu alltaf vera ósáttir við þau að einhverju leyti.

Það er skemmtilegt og athyglisvert að Feneyjanefndin, sem meðal annars hefur gefið álit á því frumvarpi sem hér liggur fyrir, virðist til dæmis hafa athugasemdir við það skipulag sem er í gildandi stjórnarskrá um að forseti lýðveldis sé þjóðkjörinn og að ýmsir skavankar kunni að vera á málskotsrétti til almennings og telur að því mætti koma betur fyrir með öðrum hætti. Þegar við skoðum athugasemdirnar við frumvarp að nýrri stjórnarskrá er mikilvægt að hafa í huga að um gildandi stjórnarskrá á hverjum tíma verður auðvitað alltaf ósætti að einhverju marki, það verður að einhverju marki óvissa og það verða í hugum flestra, ef ekki allra, einhverjir gallar á því sem að endingu verður að stjórnarskrá. Það þarf fyrst og fremst að ná nægilega mikilli samstöðu um frumvarp að stjórnarskrá til að það geti orðið að lögum.

Hvað er það sem er brýnt að verði að lögum á þessu þingi? Að mínu viti er það það sem þegar hefur verið ákveðið. Og það sem þegar hefur verið ákveðið er það sem þjóðin ákvað í þjóðaratkvæðagreiðslu 20. október síðastliðinn. Þar ákvað þjóðin algjörlega afdráttarlaust með hvaða hætti skipa skyldi fimm atriðum í stjórnarskrá lýðveldisins og tel ég að það sé skylda þingsins að uppfylla þær ákvarðanir þjóðarinnar.

Það er í fyrsta lagi að í stjórnarskránni skuli vera ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu og rétt almennings til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu. Í öðru lagi að í stjórnarskránni eigi að vera ákvæði um þjóðareign á auðlindum. Í þriðja lagi, og það kallar ekki á breytingu á gildandi stjórnarskrá, að þar eigi að vera ákvæði um þjóðkirkju. Í fjórða lagi þarf að vera ákvæði um persónukjör og í fimmta lagi ákvæði um jafnan atkvæðisrétt.

Þessi atriði hafa verið lögð í dóm þjóðarinnar í allsherjaratkvæðagreiðslu. Til hennar var boðað með lögmætum hætti, hún hefur gengið fyrir sig og niðurstaðan er kunn. Alþingi ber auðvitað skylda til þess gagnvart þjóðinni, almenningi og lýðræðinu að lögfesta niðurstöður þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu. Sjötta ákvörðunin sem tekin var var að tillaga stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá skyldi lögð til grundvallar við lögfestingu nýrra stjórnarskipunarlaga.

Það er verkefnið núna á þessum vetri, að vinna úr þeim tillögum stjórnlagaráðsins, úr þeim athugasemdum sem fram koma, bæði frá aðilum hér innan lands og utan eftir atvikum og komast eins langt í þeirri vinnu og hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd kemst, vinna úr þeim athugasemdum sem borist hafa. Þetta er að verða býsna löng vegferð. Hún byggir á öðrum vegferðum og það er býsna mikið efni til til þess að grundvalla þær ákvarðanir á. Það er auðvitað ekki hægt að útiloka að það verði einhver atriði sem ekki tekst að ljúka umfjöllun um í hv. nefnd á þessu þingi eða jafnvel einhverjir hlutar af einhverjum köflum eða heilir kaflar þess vegna. Það kemur þá bara í ljós.

Það sem tekst að vinna til enda á auðvitað að lögfesta og klára hér. Sem betur fer er þannig búið um breytingar á stjórnarskránni að í framhaldinu verða síðan þingkosningar og þarf nýtt þing og nýjan 32 manna meiri hluta í þinginu til þess að staðfesta þær samþykktir að afloknum þeim þingkosningum. Sú umgjörð tryggir að vanda verður mjög til þess sem samþykkt og klárað verður á þessu þingi vegna þess að ef það er ekki gert verður enginn meiri hluti fyrir því á næsta þingi. Þá rennur það hvort eð er út í sandinn og það aðhald hefur þetta þing í þeirri vinnu. En í framhaldinu held ég að það hljóti að vera nokkuð breið samstaða um að tryggja að auðveldara verði að klára frekari breytingar á næsta kjörtímabili sem kunna að vera eftir í lok þessa þings, fleiri en tekst að klára á grundvelli þjóðaratkvæðagreiðslunnar og á grundvelli vinnu hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, og gera þær að lögum þannig að í framhaldinu megi breyta stjórnarskrá og ljúka verkefninu með einfaldari hætti.

Ég held að full ástæða sé til þess að ljúka því alveg en ef það verður niðurstaðan að ekki næst að klára alveg öll atriðin á það ekki að stöðva þingið í því að gera þær mikilsverðu breytingar sem þjóðin hefur þegar ákveðið; að tryggja rétt til þjóðaratkvæðagreiðslu, að tryggja þjóðareign á auðlindunum, að tryggja persónukjör og að tryggja jöfnun atkvæðisréttar. Síðan á að gera eins mikið af þeim breytingum sem stjórnlagaráð lagði til, að teknu tilliti til ábendinga nefnda þingsins, sérfræðinga, umsagnaraðila og Feneyjanefndarinnar að gengnum þeim umræðum sem eðlilega fara fram í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og sem ráðið verður til lykta með atkvæðagreiðslu hér í salnum.

Þegar menn tala um sátt verða þeir að horfast í augu við að auðvitað kemur til atkvæðagreiðslu um stjórnarskrá lýðveldisins. Það vita það allir sem vita vilja að Sjálfstæðisflokkurinn hefur barist um á hæl og hnakka til þess að koma í veg fyrir að þjóðareign á auðlindum verði fest í stjórnarskrá lýðveldisins. Þeir stóðu hér síðast fyrir kosningarnar 2009 og lokuðu heilu þingi og töluðu dag og nótt til þess að koma í veg fyrir að það tækist að fá slíkt ákvæði í stjórnarskrá lýðveldisins og þeir munu gera það svo lengi sem þeir eiga sæti í þinginu.

Hitt má hins vegar binda vonir við að Framsóknarflokkurinn sé ekki í vinnu hjá Sjálfstæðisflokknum og að hann sé tilbúinn til að fylgja eftir yfirlýsingum sínum um að það eigi einmitt að tryggja það sem þjóðin hefur samþykkt, þ.e. þjóðareign á auðlindum. Ég bind vonir við að hér megi takast býsna breið samstaða um þann þátt málsins. Auðvitað verður ekki fullkomin sátt um ýmsar þær kerfisbreytingar sem lagðar eru til. Við heyrum það á ræðum hv. þingmanna Sjálfstæðisflokksins að það grunnstef sem í þeim hljómar er eitthvað á þessa leið: Það breytir enginn okkar kerfi nema við, vegna þess að þeim er ákaflega sárt um það kerfi sem Sjálfstæðisflokknum, sem gegndi lykilhlutverki í því að byggja upp það kerfi sem hrundi, er ákaflega sárt um allar breytingar á því. Þeir eru býsna tregir til þess að fallast á að einhverjir aðrir, hvað þá einhver ráð úti í bæ, geti gert tillögur um það með hvaða hætti eigi að breyta því kerfi sem þeir byggðu upp. Þess vegna verður ósætti um ýmsar slíkar tillögur og verður einfaldlega að ráða þeim til lykta í atkvæðagreiðslu. En um þau atriði sem þjóðin sjálf hefur skorið úr um í þjóðaratkvæðagreiðslu í þeim beinu spurningum sem fyrir hana voru lagðar hlýtur að mega takast býsna víðtæk samstaða í þinginu jafnvel þó að einn flokkur eða einhverjir þingmenn kunni að standa utan við þá niðurstöðu.

Virðulegur forseti. Ég vil að lokum leggja áherslu á það lýðræðisins vegna að mönnum haldist það ekki uppi í lok þessa kjörtímabils eins og í lok hins síðasta að varna því að lýðræðisleg niðurstaða fáist í afgreiðslu málsins með því að standa hér uppi og teppa ræðustólinn með málþófi.