141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[18:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég veit ekki hvort ég eigi að ergja mig á því að fara að ræða við hv. þingmann um lýðræðið og framgang þessa máls hér í þinginu fram að þessu, á hvað hefur verið hlustað og hvernig hlutirnir hafi gengið fyrir sig hér. Ég ætla nú samt að leyfa mér að fullyrða að það eina sem virkilega var lýðræðislegt við allt þetta ferli var þjóðfundurinn stóri. Það var virkilega gaman að vera þar. Það var skemmtilegt og tókst alveg ágætlega.

Síðan er ein hryllingssaga að mínu viti, við þurfum kannski ekki að vera sammála um það en mér hefur fundist að stjórnarflokkarnir og þeir sem hafa stutt þetta mál, vinnubrögðin og annað, hafi í rauninni lítið skeytt um akkúrat lýðræðið. Það er alveg ljóst að sú aðferðafræði sem hv. þingmaður talaði meðal annars fyrir varðandi persónukjör, ég túlka það alla vega þannig sem kann að vera rangt hjá mér, sem var til dæmis viðhaft við val í stjórnlagaþinginu, var bara galin aðferð. Hún endurspeglaði ekki á nokkurn einasta hátt breitt samfélag eða fulltrúa ólíkra sjónarmiða. Þeir hlutu bestu kosninguna sem höfðu mest verið í sjónvarpinu. Er það lýðræðið sem við viljum? Það er lagt til í 39. gr., eða í það minnsta má túlka það þannig, að ég eða menn sem hafa einhvern tímann verið á skjánum geta boðið sig fram í þremur kjördæmum og hafa ákveðið forskot umfram aðra. Mér finnst það ekkert sérstaklega lýðræðislegt.

Mig langar líka að segja við hv. þingmann að þegar kemur að því að greiða atkvæði um stjórnarskrá þá er rétt að niðurstaðan þarf ekki endilega að vera 63:0 en það er mjög gott ef hún er svona 55 eða eitthvað svoleiðis, það gefur stjórnarskránni miklu meira vægi. Það stendur til dæmis í áliti Feneyjanefndarinnar að við skulum reyna að ná sem mestri sátt um þær (Forseti hringir.) breytingar sem á að gera, um nýja stjórnarskrá.