141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:11]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Forseti. Ég vil byrja á að þakka þingmanninum fyrir sérstaklega góða og málefnalega ræðu. Við í nefndinni, eða meiri hluti nefndarinnar, óskuðum sérstaklega eftir umræðu um 113. gr. og þetta er dýrmætt innlegg í þá umræðu. Við höfum reifað ýmis sjónarmið í nefndinni, mörg þau sem nefnd voru áðan. Við höfum rætt ýmsa þröskulda, við höfum fengið ábendingar um að það gæti verið sniðugt að setja einhverja aðra þröskulda á breytingar. Við höfum líka fengið ábendingar, en þar eru mjög skiptar skoðanir um hvort rétt sé að það séu tvær mismunandi aðferðir við að breyta stjórnarskránni.

Persónulega truflar það mig ekki en sumir vilja alltaf hafa allt alveg eins og ég skil það svo sem vel. Mér finnst II. kaflinn, mannréttindakaflinn, ekkert mikilvægari en aðrir kaflar, þannig að það sé sagt, en það er kannski mikilvægast að ekki sé hægt að afnema mannréttindi. Við viljum geta breytt einhverju í stjórnsýslunni án þess að það sé of mikið mál en við viljum ekki að mannréttindi séu afnumin, það þarf að vera verulega mikið mál að gera það.

Ég heyrði að þingmaðurinn er vel lesinn í ýmsum umsögnum og vitnaði sérstaklega í eina frá Pawel Bartoszek, sem mér finnst mjög góð, þar sem hann talar um tímafaktorinn. Ég er nefnilega fullkomlega sammála honum um að einn til þrír mánuðir, eins og gert er ráð fyrir hér, er of stuttur tími og færi betur, og það væri ásættanlegur þröskuldur að mínu mati, að hafa þetta a.m.k. þrjá til sex mánuði eins og hann leggur til. Ég verð að fá koma aftur upp.