141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:18]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka andsvarið. Ég er fylgjandi því að við notum þjóðaratkvæðagreiðslur í meira mæli og við getum alveg gert það varðandi stjórnarskrárbreytingar. Við getum alveg tekið það upp að við séum ávallt með þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar. Ég er ekki alfarið á móti því, alls ekki. En af þessum tveimur möguleikum væri ég alveg tilbúin að skoða það, af því að ég hafði ekki áttað mig á því að hv. þingmaður væri hér að tala um þriðja möguleikann, að hafa tvöfalt og svo þjóðaratkvæðagreiðslu, það kemur ekki fram í nefndarálitinu að hugmyndir hafi verið um að hafa það þannig.

Að meginstefnu til vil ég að gætt sé að þessum sjónarmiðum, að reynt sé að halda í það að tvö þing þurfi að samþykkja breytingar því að þar með erum við að segja að reyna eigi að ná sem mestri sátt um stjórnarskrárbreytingar.