141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:22]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að leyfa mér að spyrja hv. þingmann út í álit Feneyjanefndarinnar þó svo að þingmaðurinn hafi rétt í lok ræðu sinnar komið inn á það mál allt saman. Ég hef lesið samantektina í lokin á álitinu og er kominn á bls. 7 í yfirferð yfir hvern einasta staflið, eða hvað sem á að kalla það. Ég er kominn á bls. 7 en ég skil ekki hvað þetta mál er að gera hér, ég verð bara að segja það, þótt ég sé ekki kominn lengra í yfirferð minni yfir álitið.

Það er náttúrlega algjörlega með ólíkindum að við séum að ræða þetta mál hérna, álit þeirrar nefndar sem málið er sent til. Það er enn þá á enskri tungu þannig að við sem erum þó þokkaleg í ensku erum að reyna að skilja lagatæknileg orð og annað. Það er með ólíkindum að við séum að ræða málið hér, að ekki sé beðið eftir því á íslensku. Kannski er það bara ákveðin aðferðafræði að bíða ekki eftir álitinu á íslensku vegna þess að ef enskuskilningur minn er réttur verður það ekki falleg lesning.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún hafi yfirsýn og yfirlit yfir það hverju var breytt í frumvarpinu frá því plaggi sem fór til Feneyjanefndarinnar og því sem við ræðum núna. Það er bara einföld já- eða nei-spurning því að ég hef ekki yfirsýn yfir það enn þá. Það kann að vera einhver klaufaskapur hjá þeim er hér stendur, en ég hef ekki yfirsýn yfir það. Mér skilst að 50 breytingar hafi verið gerðar, hvort það er satt eða rétt veit ég ekki (Gripið fram í.) — jú, það er rétt já, breytingartillögurnar eru á einu skjali. Þá spyrjum við: Eru það eðlileg vinnubrögð að senda eitt skjal til Feneyjanefndarinnar og fá álit, koma svo með breytingartillögur í þingið þar sem við ræðum þær og álitið?