141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:24]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir andsvarið. Þetta eru gögnin sem ég hafði með mér hingað til að halda þessa ræðu. Ég var aðallega að tala um eitt ákvæði í frumvarpinu. En þær breytingar sem lagðar eru til eru tiltölulega flóknar af því að þær eru viðamiklar. Það er auðvitað ekki til þess fallið að einfalda hlutina að það komi 50 breytingartillögur á milli umræðna. En svona er lífið bara, við þurfum að tileinka okkur þann veruleika og reyna að gera það besta úr málinu.

Eins og ég sagði er ég búin að fjalla í ræðu minni um eitt ákvæði sem ég hef reyndar mikinn áhuga á og mikla sannfæringu fyrir að við þurfum að taka til ítarlegrar umræðu í þinginu. Það er þá spurning hvort ég eigi 114 ræður eftir af því að það eru 115 greinar í frumvarpinu. Ég vona nú ekki ykkar vegna sem hér eruð að hlusta.

Auðvitað hefði verið heppilegra, eins og ég sagði, ef álit Feneyjanefndarinnar hefði komið fyrr bara til þess að það væri meiri heildarpakki og þar væri einhver yfirsýn yfir hver staðan væri á málinu. Ég trúi því að allir sem lesa álitið hugsi sinn gang og segi: Nú þarf ég að lesa málið aftur. Segjum að ég væri með mikla sannfæringu fyrir því að það ætti að fara hér í gegn, þá hlýt ég að ætla þeim þingmönnum sem þannig eru þenkjandi að taka álitið og nýta það á einhvern hátt, annars hefði það varla verið sent þessari nefnd til umfjöllunar.

Það sem ég hef lesið af álitinu inniheldur stórar og miklar spurningar. Ég reifaði í mjög stuttu máli álitaefni varðandi mannréttindakaflann og ég trúi því að þeir hv. þingmenn sem standa að málinu og hafa mikla sannfæringu fyrir því séu þar á réttri leið, ætli sér að lesa álitið (Forseti hringir.) og fjalla ítarlega um það.