141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:26]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef ég heyrði rétt og ef ég náði að fylgja hv. þingmanni eftir í ræðu hennar fjallaði hún töluvert um hvernig breyta ætti stjórnarskránni. Ég get tekið undir með hv. þingmanni um að það á að vera tiltölulega erfitt að breyta stjórnarskrá því að ekki viljum við t.d. lenda í því að einhvers konar meiri hluti geti með einföldum hætti komið á hér einhverri stjórnskipan sem mundi fara gegn hagsmunum meiri hlutans eða meiri hluta þjóðarinnar.

Ef ég skil niðurstöður Feneyjanefndarinnar rétt nefnir nefndin í lið nr. 188 í álitinu að það kunni að vera rétt að leggja allt til hliðar nema einmitt það ákvæði er lýtur að því hvernig breyta á stjórnarskránni. (Forseti hringir.) Þá hefur nefndin væntanlega hugsað til þess að það geti orðið einfaldara að gera það í tengslum við þá vinnu sem fram undan er.