141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:27]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er áhugavert að lesa í athugasemd nr. 188 um þá hugmynd þeirra um málsmeðferð þessa máls úr því sem komið er, þ.e. að einskorða umræðuna hér við það með hvaða hætti eigi að breyta stjórnarskránni. Ég tel fulla þörf á að ræða það í þaula eins og ég hef sagt. Kannski er það það sem við getum gert úr því að tíminn er hlaupinn frá okkur. Það eru 14 þingdagar eftir af þessu kjörtímabili og við eigum eftir að fara yfir álitið, við eigum eftir að fjalla um það. Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd á væntanlega eftir að taka þó nokkra fundi um það og koma síðan með breytingartillögur eða hugmyndir um nýja málsmeðferð á málinu eftir að hafa fjallað um álitið, það hlýtur að vera.

Ég held að tímanum væri best varið í að ræða með hvaða hætti við viljum hafa ákvæðið varðandi breytingar á stjórnarskránni (Forseti hringir.) úr því sem komið er.