141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[20:29]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum frumvarp til stjórnarskipunarlaga, afar merkilegt frumvarp sem er til komið í samhengi við sögulegt ferli, ferli sem á sér að einhverju leyti upptök í hruninu, ekki bara hruni fjármálakerfisins heldur hruninu á trausti almennings á, ekki bara þessari stofnun sem við erum hluti af hér, Alþingi, heldur á stjórnkerfinu öllu. Ein helsta krafan eftir þetta hrun var um nýja stjórnmálamenningu, um ný vinnubrögð, aukið beint lýðræði í samfélaginu, að opnað yrði fyrir aukinni þátttöku og auknum áhrifum almennings í landinu á það hvernig þetta samfélag er mótað. Það hefur skilað sér í því ferli sem við ræðum hér.

Sú var tíðin, og það hefur myndast fyrir því hefð, að fámenn nefnd fulltrúa stjórnmálaflokkanna móti tillögur um endurskoðun stjórnarskrárinnar. Í þetta sinn var ferlið opnað upp á gátt fyrir beinni aðkomu þjóðarinnar. Þjóðfundur, tveir frekar en einn, stjórnlaganefnd, kosning fulltrúa þjóðarinnar á stjórnlagaþing og síðan sérstök þjóðaratkvæðagreiðsla um það frumvarp sem kom út úr vinnu stjórnlagaráðsins, þeirra 25 einstaklinga sem hlutu mest fylgi meðal þjóðarinnar í sérstakri kosningu. Í þrígang hefur þjóðin því haft beina aðkomu að þessari vinnu við breytingar á stjórnarskránni. Höfum í huga að yfir 80 þús. manns kusu fulltrúa til setu á stjórnlagaþingi og yfir 100 þús. manns kusu í þjóðaratkvæðagreiðslunni um frumvarp stjórnlagaráðs í október síðastliðnum.

Það er því rétt þegar stjórnarandstæðingar úr röðum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tala um þetta ferli sem fordæmalaust. Það á sér engin fordæmi í sögu lýðveldisins og þess vegna er það svo merkilegt, svo jákvætt, svo miklu vandaðra og lýðræðislegra en dæmi eru um í stuttri sögu þessa lýðveldis. Í stað þess að einungis örfáir einstaklingar véli um breytingar á stjórnarskránni og árangurinn sé oftar en ekki í skötulíki hafa hér tugþúsundir, reyndar rétt innan við 200 þús. manns, í þessu samfélagi haft beina aðkomu að þessari vinnu.

Ýmsir aðilar í þinginu og í samfélaginu hafa reynt að tala þetta ferli niður, ýjað að því að hér hafi verið kastað til höndum eða álit sérfræðinga hunsuð. Auðvitað er hrein fjarstæða að halda slíku fram. Þvert á móti hefur verið lögð mikil vinna í þetta mál, mest af hálfu stjórnlagaráðs en sömuleiðis af hálfu ýmissa sérfræðinga og þingmanna úr öllum flokkum. Tekið hefur verið tillit til fjölmargra athugasemda og ábendinga sérfræðinga og annarra umsagnaraðila um allt samfélagið.

Ég fagna sérstaklega þeirri miklu vinnu sem átt hefur sér stað í fastanefndum Alþingis um þetta mál frá því í nóvember. Það er enginn vafi að sú vinna var mjög góð og dýpkaði skilning þingheims á þeim breytingum sem hér um ræðir. Sú vinna skilaði fjölmörgum breytingartillögum, einum 40 talsins, sem ég tel að séu til bóta. Í einhverjum tilvikum er þar vikið frá breytingum sem sérfræðinganefnd lögfræðinga lagði til á frumvarpinu og horfið aftur til tillagna stjórnlagaráðs. Í einstaka tilvikum er lagt til að fallið verði frá breytingum á gildandi stjórnarskrá og í öðrum tilvikum er um að ræða breytingar sem fela í sér vilja þingheims sem þó er í ágætu samræmi við áherslur stjórnlagaráðs.

Ég ætla í þessari ræðu að fara sérstaklega yfir nokkur atriði sem tengjast vinnu hv. allsherjar- og menntamálanefndar en hún hafði til umfjöllunar 32 greinar, rétt innan við þriðjung þessa frumvarps, og lagði fram 12 breytingartillögur.

Í 4. gr. frumvarpsins er fjallað um íslenskan ríkisborgararétt. Sú grein hefur að geyma mikilvæga, efnislega breytingu frá gildandi stjórnarskrá þess efnis að þeir sem við fæðingu eiga foreldra með íslenskt ríkisfang öðlist sjálfir ríkisborgararétt. Þessi breyting gengur því lengra en gildandi stjórnarskrá og raunar einnig gildandi lög um íslenskan ríkisborgararétt sem veita móður meiri rétt en föður hvað þetta varðar.

Hér er á ferðinni mikilvæg réttarbót í málaflokki sem ég tel reyndar mikilvægt að endurskoða frá grunni í samhengi við nýtt frumvarp um útlendinga sem nú er komið inn í þingið. Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leggur síðan til breytingartillögu við þessa grein þar sem hnykkt er á því að engan megi svipta íslenskum ríkisborgararétti sem öðlast hefur þann rétt með lögmætum hætti. Sú takmörkun er eðlileg og í samræmi við alþjóðlega þróun í þessum málaflokki eins og kemur fram í skilabréfi sérfræðingahópsins sem vakti máls á þessari breytingu.

Athygli hv. allsherjar- og menntamálanefndar var vakin á því við vinnslu málsins í nefndinni að áberandi væri að ekki væri í frumvarpinu sérstakt ákvæði um íslenska tungu sem orkaði tvímælis í ljósi mikilvægis tungumálsins fyrir íslenska menningu og þjóðarvitund. Reyndar er minnst á tunguna í aðfaraorðum frumvarpsins þar sem fjallað er um sameiginlega ábyrgð þegna landsins á arfi kynslóðanna en það er álit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar að rétt sé að bæta við frumvarpið sérstöku ákvæði sem viðurkenni og treysti í sessi mikilvægi tungunnar í þjóðmenningu okkar. Það er mikilvægt að hafa í huga að þjóðfundurinn lagði áherslu á að staðinn yrði vörður um sameiginleg þjóðareinkenni Íslendinga, þar með talið tungumálið. Niðurstaða hans var að vernda bæri og efla þyrfti íslenska tungu sem þjóðtungu, standa ætti vörð um hana í ræðu og riti og tryggja þyrfti sérstaklega stöðu íslenskrar tungu í skólum landsins. Það er meðal annars í þessu ljósi sem meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar gerir að sinni tillögu úr skýrslu stjórnlaganefndar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Íslenska er þjóðtunga á Íslandi og skal ríkisvaldið styðja hana og vernda.“

Virðulegi forseti. Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leggur til þá breytingu á frumvarpinu að tekið verði inn í það ákvæði í gildandi stjórnarskrá um takmörkun á fjárfestingum útlendinga í fasteignaréttindum eða atvinnufyrirtækjum. Nefndinni var bent á að óvíst væri að unnt væri að takmarka þessi réttindi yrði fylgt þeirri leiðsögn stjórnlagaráðs að kveða ekki á um slíka takmörkun í stjórnarskránni heldur einungis í almennum lögum. Það er ljóst að réttaráhrif þess að taka ákvæðið úr stjórnarskrá eru í besta falli óljós. Í fyrsta lagi er ekki ljóst hvort slík takmörkun mundi falla undir hið almenna skerðingarákvæði í 9. gr. frumvarpsins og í öðru lagi má færa fyrir því rök að almenn löggjöf um takmörkun á fjárfestingum útlendinga sem ekki er varin í stjórnarskrá kynni að brjóta gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og sú ákvörðun að fella slíkt ákvæði úr gildandi stjórnarskrá gæti því haft sjálfstæð réttaráhrif.

Virðulegi forseti. Þá er röðin komin að þeim kafla frumvarpsins sem lýtur að tjáningar- og upplýsingafrelsi, upplýsingarétti og réttindum og skyldum fjölmiðla, þ.e. 14.–16. gr. frumvarpsins. Þar leggur meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar til veigamiklar breytingar frá frumvarpinu. Þetta eru allt greinar sem tóku verulegum breytingum í meðförum sérfræðingahópsins og hafa ýmsir orðið til þess að gagnrýna að þar hafi hópurinn vikið í veigamiklum atriðum, jafnvel grundvallaratriðum, frá tillögum stjórnlagaráðs. Efnislega lýtur gagnrýnin að því að í meðförum sérfræðingahópsins hafi gildissvið ákvæðanna verið þrengt verulega frá því sem var í tillögum stjórnlagaráðs.

Í 14. gr. frumvarpsins er fjallað um tjáningar- og upplýsingafrelsi. Í tillögum stjórnlagaráðs segir að óheimilt sé að skerða aðgang að netinu og upplýsingatækni nema með úrlausn dómara og að uppfylltum sömu efnisskilyrðum og eiga við um skorður við tjáningarfrelsi. Sérfræðingahópurinn felldi þetta ákvæði hins vegar brott en setti í staðinn ákvæði um að öllum sé frjálst að leita eftir, taka við og miðla upplýsingum. Meiri hlutinn gagnrýnir þessa breytingu í frumvarpinu, ekki síst á þeim forsendum að túlka megi þetta ákvæði með þeim hætti að það heimili í reynd að sett séu lög sem hamli aðgengi að einstökum vefsvæðum, með öðrum orðum heimili ritskoðun á netinu. Meiri hlutinn leggur því til að ákvæðinu verði breytt á þann hátt að tekin verði upp að nýju tillaga stjórnlagaráðs og orðalag í því frumvarpi sem þjóðin veitti meirihlutastuðning sinn í atkvæðagreiðslunni í október.

Í 15. gr. frumvarpsins er fjallað um upplýsingarétt. Þar er mikilvægt að árétta að í tillögum stjórnlagaráðs er gert ráð fyrir nýrri nálgun á upplýsingarétt hér á landi sem byggi á gagnsæi upplýsinga og tryggu aðgengi að gögnum í fórum stjórnvalda sem stuðli að meira aðhaldi við valdhafa og upplýstari umræðu. Í breytingartillögu sérfræðingahópsins er hins vegar gert ráð fyrir því að óska þyrfti eftir aðgangi að skjölum sem takmarkaði verulega þennan upplýsingarétt almennings og fjölmiðla og seinkaði því að unnt væri að fá gögn enda væri þá ekki kveðið á um sjálfvirkan aðgang að gögnum heldur að taka þyrfti sérstaka afstöðu til beiðna um upplýsingar.

Það er álit meiri hlutans að mikill munur sé á þessum tillögum, annars vegar stjórnlagaráðs og hins vegar sérfræðingahópsins, og breyting sérfræðingahópsins sé mjög umdeilanleg. Það má segja að með henni sé upplýsingaréttinum í reynd snúið í haus. Í stað þess að meginreglan sé sú að aðgengi almennings að upplýsingum úr stjórnkerfinu sé tryggt sé, samkvæmt frumvarpinu, upplýsingarétturinn háður því að viðkomandi leiti sjálfur eftir upplýsingum. Hér er um grundvallaratriði að ræða sem kristallar að mörgu leyti muninn á gamla Íslandi og því nýja Íslandi sem þjóðin hefur kallað eftir frá hruni. Augljóst er að slík breyting mundi kalla á breytt vinnubrögð Stjórnarráðsins og við því er eðlilegt að bregðast með raunhæfum aðlögunartíma. Hitt er morgunljóst, að til þess að almenningur og fjölmiðlar geti veitt stjórnvöldum á hverjum tíma uppbyggilegt aðhald þarf að styrkja upplýsingaréttinn og standa traustan vörð um tjáningarfrelsið og það er gert með breytingartillögum meiri hlutans.

Í 16. gr. frumvarpsins er kveðið á um frjálsa, upplýsta þjóðfélagsumræðu og er ákvæðinu meðal annars ætlað að tryggja frelsi og sjálfstæði fjölmiðla. Með ákvæðinu er lagt til að trúnaðarsamband blaðamanna við heimildarmenn sína skuli njóta verndar, en sérfræðingahópurinn felldi brott úr ákvæðinu vernd uppljóstrara enda félli slíkt undir heimildarmenn. Hins vegar var bent á það fyrir nefndinni, og meiri hlutinn tekur undir það, að uppljóstrarar hafi allt aðra stöðu en heimildarmenn og þurfi sérstakrar verndar við. Uppljóstrarar þurfi ekki einungis hefðbundna vernd heimildarmanna heldur annars konar vernd enda gæti starf þeirra, staða og öryggi verið í hættu vegna upplýsinga sem þeir koma á framfæri. Meiri hlutinn tekur eindregið undir sjónarmið um að mikilvægir almannahagsmunir kalli á sérstaka vernd uppljóstrara og leggur til að ákvæðið verði óbreytt frá tillögu stjórnlagaráðs þannig að sérstaklega verði kveðið á um vernd uppljóstrara.

Enn fremur var gagnrýnt, og meiri hlutinn tekur tillit til þess, að sérfræðingahópurinn felldi brott úr 16. gr. ákvæði um ritstjórnarlegt sjálfstæði fjölmiðla og þeim sjónarmiðum komið á framfæri að ekki væri nægilegt að kveða á um sjálfstæði fjölmiðlanna enda er ritstjórnarlegt sjálfstæði þeirra annars eðlis og dæmi hefðu sýnt að brýnt væri að tryggja það.

Virðulegi forseti. Ein af breytingartillögum meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar lýtur að 24. gr., um menntun. Í frumvarpinu er nýtt ákvæði sem ekki var í frumvarpi stjórnlagaráðs og lýtur að því að ríkisvaldinu beri að virða ákvarðanir foreldra um að uppeldi og menntun barna þeirra sé í samræmi við trúar- og lífsskoðanir foreldranna. Í greinargerð með ákvæðinu kemur fram að það feli í sér að vernda beri börn fyrir innrætingu ríkisvaldsins og kennara á gildum eða viðhorfum sem þessir aðilar kunni að aðhyllast en séu í andstöðu við trúar- eða lífsskoðanir barnsins eða foreldra þess.

Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar bendir hins vegar á að þetta ákvæði taki ekki mið af breyttum viðhorfum og nýlegum alþjóðaskuldbindingum um sjálfstæðan rétt barna í þessum efnum, t.d. ákvæði samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi barnsins, þ.e. barnasáttmálans svokallaða, frá 1989 sem fullgiltur var hér á landi árið 1992 og er nú í þinginu og stefnir í að verði lögfestur í góðri sátt þingheims.

Benda má á að barnasáttmálinn hefur á táknrænan og afgerandi hátt breytt viðhorfum og áherslum sem liggja til grundvallar réttarstöðu barna og foreldra þar sem horfið hefur verið frá því að miða við rétt foreldra til að ráða uppeldi barns í samræmi við sínar lífsskoðanir en í stað þess gengið út frá því að barn njóti réttinda sem sjálfstæður einstaklingur og að hlutverk foreldra sé að gæta þessara réttinda.

Virðulegi forseti. Þá vil ég vekja athygli á 96. gr. frumvarpsins þar sem kveðið er á um skipun embættismanna. Meiri hluti allsherjar- og menntamálanefndar leggur reyndar ekki til breytingartillögu en ræðir talsvert um þetta ákvæði í nefndaráliti sínu. Þetta er sérkennilegt ákvæði sem kveður á um að ráðherrar, forseti og Alþingi hafi skilgreint hlutverk þegar kemur að skipun í embætti dómara og ríkissaksóknara. Gert er ráð fyrir því að ráðherra skipi í þessi embætti en forseti Íslands hafi hins vegar synjunarvald á þá skipun og ef hann beiti því komi til kasta Alþingis sem geti samþykkt skipunina þvert ofan í vilja forsetans með auknum meiri hluta.

Við þetta ákvæði er ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi er þarna gagnrýnivert að Alþingi sé fengið hlutverk við skipan dómara í ljósi grundvallarreglu stjórnskipunarinnar um aðgreiningu löggjafarvalds og dómsvalds.

Í öðru lagi er forseti Íslands þarna í framandi hlutverki sem einhvers konar milliliður milli ráðherra og Alþingis. Þeim sjónarmiðum var komið á framfæri við nefndina að með því að bæta forseta Íslands inn í skipunarferlið væri honum í reynd falið geðþóttavald, enda er ekki getið neinna sérstakra skilyrða fyrir því að forseti ákveði að synja tillögu ráðherra og honum ekki settar neinar skorður er tryggi að fagleg sjónarmið ráði för. Þá komu einnig fram sjónarmið um að þessi tillaga um nýja tilhögun við dómaraskipun búi til ófyrirsjáanlega möguleika á pólitískum ágreiningi og ófriði um skipun dómara þar sem ráðherra, þing og forseti blandist inn í ferlið.

Í þriðja lagi er með þessu ákvæði í reynd litið fram hjá og stefnt í tvísýnu nýlegri breytingu á dómstólalögum þar sem kveðið er á um hlutverk hæfisnefndar þegar kemur að veitingu dómaraembætta. Meiri hlutinn tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í greinargerð að hlutverk sérstakrar hæfisnefndar við skipun dómara hafi reynst vel og bendir á að slíkt fyrirkomulag hefur enn fremur verið viðhaft um ýmis önnur embætti. Telur meiri hlutinn að grundvöllur 96. gr. sé og eigi að vera sú meginhugsun að hæfni og málefnaleg sjónarmið ráði för við skipun manna í embætti. Þegar litið er til þeirrar gagnrýni sem komið hefur fram á greinina virðist hins vegar ekki ljóst að ákvæðið nái fram þessum markmiðum. Meiri hlutinn telur aðkomu forseta að skipunarferlinu líklega til að flækja það, auk þess sem það auki vafa um að fagleg sjónarmið ráði för við skipun.

Meiri hlutinn leggur ekki til, eins og ég nefndi, sérstakar breytingar á ákvæðinu en ég vil að það komi fram að ég tel mikilvægt að það verði skoðað vandlega hvort ekki sé rétt að gera breytingar á þessari grein, t.d. með þeim hætti að felldar verði brott 3.–5. mgr. ákvæðisins en áhersla lögð á það sem kemur fram í 2. mgr., um að tryggja skuli með lögum að hæfni og málefnaleg sjónarmið ráði för við skipun embættismanna.

Virðulegi forseti. Kaflarnir um stjórnskipan landsins og samspil mismunandi þátta ríkisvaldsins, Alþingis, ríkisstjórnar og forseta Íslands, var ekki viðfangsefni hv. allsherjar- og menntamálanefndar en það er hins vegar meginviðfangsefni Feneyjanefndarinnar sem í áliti sínu, sem nú hefur verið opinberað, bendir á ýmis atriði sem huga þurfi að og megi betur fara í frumvarpinu. Það er mín skoðun að álit Feneyjanefndar gefi tilefni til að skoða sérstaklega þann hluta frumvarpsins sem lýtur að stjórnskipan landsins og rök séu fyrir því að taka þann hluta frumvarpsins sérstaklega út fyrir sviga og vinna betur með það fyrir augum að afgreiða á næsta þingi. Ég tel hins vegar að vel sé hægt að bregðast við öðrum athugasemdum Feneyjanefndarinnar á þessu þingi og klára þá kafla frumvarpsins sem eftir standa, svo sem kaflann um mannréttindi, um þjóðaratkvæðagreiðslur, utanríkismál og síðast en ekki síst ákvæðið um stjórnarskrárbreytingar sem er mun lýðræðislegra en ákvæðið í gildandi stjórnarskrá.

Gagnrýnendur þessa frumvarps hafa farið mikinn um nauðsyn þess að fram fari heildstætt mat á áhrifum laganna. Vissulega er mikilvægt að gera sér grein fyrir því hver verði réttaráhrif helstu breytinga frá gildandi stjórnarskrá. Hins vegar er mikilvægt að hafa í huga að slíkt mat er að verulegu leyti háð því hvernig viðkomandi breytingar verða útfærðar í löggjöf í framhaldinu og það er ekki fyrr en viðkomandi lagafrumvörp liggja fyrir sem raunhæft er að leggja mat á áhrifin, þ.e. mat sem raunverulegt mark er takandi á.

Það má líka hafa í huga að þegar síðast voru gerðar umfangsmiklar breytingar á stjórnarskránni, árið 1995, þegar allur mannréttindakaflinn kom inn í stjórnarskrána lá ekkert slíkt mat til grundvallar þegar kaflinn var afgreiddur í þinginu.

Í þriðja lagi mætti spyrja sig í samhengi við þessa umræðu um áhrif frumvarpsins og mat á því hversu bókstaflega hefur verið farið eftir þeirri leiðsögn um réttaráhrif sem felast í gildandi stjórnarskrá lýðveldisins. Nefna mætti ýmis dæmi um greinar sem í besta falli er umdeilanlegt að fylgt hafi verið í reynd í okkar stjórnkerfi og í versta falli ríma alls ekki við þann veruleika sem við þekkjum og hrærumst í.

Ég nefni nokkur dæmi. Í núgildandi stjórnarskrá segir að forseti Íslands skipi ráðherra og veiti þeim lausn, hann ákveði tölu þeirra og skipti störfum með þeim. Er það svo í reynd? Er það í reynd svo að forseti Íslands hafi þetta ákvörðunarvald og það sé hann sem ákveði verkaskiptingu í ráðuneytum?

Alþingismenn eru eingöngu bundnir við sannfæringu sína og eigi við neinar reglur frá kjósendum sínum. Er það svo? Geta menn í hreinskilni og fullum heiðarleika sagt að þetta sé meginreglan sem alþingismenn í þessum sal fylgi? Í öðru lagi, er þetta lýðræðislegt? Skiptir stefna stjórnmálaflokkanna eins og hún er borin fram í þingkosningum engu máli?

Engan má skylda til aðildar að félagi. Er ekki verið að skrá börn inn í trúfélag í hverri einustu viku allan ársins hring án þess að þau hafi verið spurð álits eða veitt samþykki sitt til þess?

Öllum er frjálst að stunda þá atvinnu sem þeir kjósa. Eru allir sammála um að þessi regla sé hin gullna regla í íslenskum sjávarútvegi?

Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi. Getum við raunverulega haldið því fram að þessari reglu í stjórnarskrá lýðveldisins sem gilt hefur í áratugi sé í reynd fylgt þegar við erum með nærri þriðjung nemenda í framhaldsskóla sem hættir námi á miðri leið af því að hann hefur ekki fengið áhuga sínum og þekkingarþorsta svalað í íslenska skólakerfinu? Hann hefur með öðrum orðum ekki fundið nám við sitt hæfi.

Ég nefni þessi dæmi til að undirstrika að gildandi stjórnarskrá lýðveldisins hefur að geyma fjölmörg ákvæði sem fela í sér yfirlýsingu um vilja og almenn markmið sem síðan eru nánar útfærð í lögum og reglum. Stjórnarskráin er stöðug uppspretta túlkana og álitamála sem mörg hver verða ekki endanlega útkljáð nema fyrir dómstólum. Krafan um að fyrir liggi nákvæmt heildstætt mat á öllum áhrifum frumvarpsins er því í besta falli óraunhæf og í versta falli pólitískur fyrirsláttur stjórnmálaafla sem kalla eftir allt öðrum vinnubrögðum núverandi stjórnarmeirihluta en þau sjálf ástunduðu þegar þau voru við völd í þessu landi.

Virðulegi forseti. Ég hef reifað helstu breytingar hv. allsherjar- og menntamálanefndar á frumvarpi til stjórnarskipunarlaga. Þetta mál hefur fengið óvenjulangan og góðan meðgöngutíma í þinginu og reyndar samfélaginu öllu. Þetta ferli um mótun nýrrar stjórnarskrár hefur verið einstakt því að aldrei áður hefur aðkoma þjóðarinnar að breytingum á stjórnarskránni verið svo bein og milliliðalaus. Um 2 þús. fulltrúar hennar sátu tvo þjóðfundi árin 2009 og 2010 þar sem grunnur var lagður að því starfi sem nú er til meðferðar í þinginu. Um 180 þús. manns mættu á kjörstað í tvennum kosningum til að kjósa fulltrúa til að vinna nýja stjórnarskrá og síðan til að gefa álit sitt á þeirri vinnu. Það er líka fordæmalaust að allar fagnefndir Alþingis hafa komið að málinu, allir 63 þingmenn Alþingis hafa haft beina aðkomu að þessari vinnu undanfarna mánuði. Hún hefur skilað sér í 40 breytingartillögum sem gert hafa þetta frumvarp enn betra.

Nú hefur Feneyjanefndin skilað áliti sínu sem mun fá viðeigandi meðferð í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd eins og vera ber, rétt eins og umsagnir innlendra umsagnaraðila. Málið er vissulega umdeilt og það er það af því að hér takast á íhaldssöm öfl sem vilja ríghalda í gamla tíma þar sem breytingar á stjórnarskrá eru ræddar og mótaðar í litlum hópi örfárra kjörinna fulltrúa og síðan stuðningsmenn nýrra tíma og nýrra vinnubragða sem vilja auka beint lýðræði, styrkja og efla réttindi almennings til þátttöku í ákvörðunum um mótun samfélagsins.

Virðulegi forseti. Það er ekki eftir neinu að bíða. Sómi Alþingis er undir að fylgja vilja þjóðarinnar eins og hann hefur birst í þessu ferli um að frumvarp stjórnlagaráðs verði grundvöllurinn að nýrri stjórnarskrá. Ég skora á þingmenn að varpa af sér oki fortíðarinnar, oki úreltra vinnubragða við breytingar á grundvallarlöggjöf samfélagsins, og ganga til móts við kröfu samtímans um bætta stjórnmálamenningu og aukið lýðræði á Íslandi.