141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:04]
Horfa

Skúli Helgason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er fullt tilefni til að taka undir þessi orð hv. þingmanns sem eru auðvitað að einhverju leyti rauði þráðurinn í þeim lærdómi sem ég og margir fleiri telja að við þurfum að draga af atburðum síðustu ára, að það sé raunverulegt tilefni til að gera breytingar á vinnubrögðum og því hvernig menn nálgast samstarf milli flokka á þinginu. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að oftar en ekki sé prýðilegt samstarf á milli þingmanna úr ólíkum flokkum í þinginu. Það fer hins vegar ekkert mjög hátt í almennri umræðu og það er lítið í kastljósi fjölmiðlanna, en það breytir því ekki að oft er mjög góð vinna unnin í nefndum þingsins og menn láta ekki flokksskírteinið hamla því að vinna saman að því að gera þingmál betur úr garði en þegar þau koma hingað inn.