141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:05]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir efnislega ræðu, mestan part. Mér fannst hv. þingmaður reyndar fara svolítið af leið þegar hann reyndi að stilla málum þannig upp að annars vegar væru hinir hugdjörfu sem vildu fara þær leiðir sem farnar hefðu verið varðandi endurskoðun stjórnarskrárinnar og síðan aðrir sem vildu hafa þetta í einhverjum skúmaskotum. Þetta er auðvitað ekki alveg sanngjörn lýsing.

Við skulum þá fjalla um efnisatriðin. Hv. þingmaður sagði, sem er alveg rétt, að þegar menn hefðu sett niður stjórnarskrártexta létu menn gjarnan reyna á þá með einhverjum hætti fyrir dómstólum. Við þurfum síðan að setja lög þessu til fyllingar og þá þarf fyrst og fremst að gæta þess að lögin séu í samræmi við stjórnarskrána. Auðvitað hefur margt skýrst í tímans rás núna. Hv. þingmaður nefndi ýmis dæmi, hann nefndi spurninguna um aðgangstakmarkanir í sjávarútvegi, það mál hefur til dæmis farið fyrir dómstóla. Það liggur fyrir að dómstólarnir telja að núgildandi löggjöf sé í samræmi við stjórnarskrána.

Það sem mér finnst hins vegar skipta miklu máli í þessu — og ég tel að sé kannski einn meginkjarninn í allri gagnrýninni í þessu — er að við höfum mjög takmarkað eða lítið yfirlit yfir það hvað þær breytingar sem verið er að boða þýða til dæmis í breytingum á lagasetningu. Í hvað mun þetta stefna. Þá finnst mér dálítið ódýrt að segja: Já, það látum við bara dómstólana skera úr um í tímans rás. Við vitum hvað slíkt ævintýri mundi bjóða upp á; veislu fyrir lögmenn í ár og áratugi. Það er ekki það sem við ætlum að gera, við ætlum ekki að hafa mikla réttaróvissu um nánast alla þætti samfélags okkar. Þá er stóra málið það hvort við getum ekki reynt að máta stjórnarskrána við núgildandi löggjöf til að við áttum okkur á því í hvað stefnir.

Hv. þingmaður nefndi til dæmis skipun dómara sem stangaðist á við núgildandi löggjöf, nýja löggjöf. Björg Thorarensen og Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, hafa bent á varðandi upplýsingalöggjöfina (Forseti hringir.) að þar stangist til dæmis á upplýsingalöggjöf okkar og þetta frumvarp. Það eru þessir hlutir sem ég tel svo brýnt að við fáum úr skorið og svarað áður en við afgreiðum svona veigamikið frumvarp.