141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:10]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er örugglega rétt hjá hv. þingmanni að ekki er hægt að róa fyrir allar víkur í þessu máli. En það sem við þurfum að minnsta kosti að gera er það að máta stjórnarskrána, eins og hún liggur fyrir í frumvarpinu með breytingartillögunum, við þá löggjöf sem við höfum búið við. Hv. þingmaður nefndi réttilega skipan dómara, það er ljóst mál að þetta frumvarp gengur þvert á nýsamþykkt lög í þeim efnum. Sömuleiðis hefur verið vakin athygli á því, af ekki ómerkara fólki en Björgu Thorarensen prófessor og umboðsmanni Alþingis, að til að mynda það ákvæði í frumvarpinu sem lýtur að aðgangi að upplýsingum úr stjórnsýslunni sé væntanlega ofvaxið, eins og sakir standa, okkar íslensku stjórnsýslu. Ekki vegna þess að menn vilji loka þetta allt af heldur er það bara einfaldlega þannig. Þá þurfum við að velta þessu fyrir okkur: Erum við hér að búa til marklaust ákvæði eða getum við breytt þessu ákvæði meira í átt að raunveruleikanum?

Varðandi stöðu málsins þá liggur það bara fyrir, það sjá allir, að það er í miklum ógöngum, það er í miklu þrátefli, það er mikill ágreiningur um þetta mál. Ég vil ekki segja að (Forseti hringir.) það sé Alþingi að kenna. Það er ekki mjög langt síðan Alþingi gat farið að festa hendi á þetta mál. Málið hefur hins vegar dregist af mörgum öðrum ástæðum og mér finnst að við eigum að draga lærdóm af því hvað varðar það ferli sem við bjuggum til.