141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða nýtt frumvarp til stjórnarskipunarlaga. Ég vil í upphafi máls míns koma inn á það umhverfi eða þær aðstæður sem við ræðum málið við. Ég held að það væri hollt fyrir okkur öll að hugsa aðeins um það. Ég hef verið dálítið hugsi eftir yfirlýsingar hv. þm. Þórs Saaris um að ef ríkisstjórnin eða ríkisstjórnarflokkarnir kláruðu ekki málið og færu eitthvað að breyta um stefnu í því ætti ríkisstjórnin ekki að sitja deginum lengur.

Þetta er ákveðið umhverfi sem stjórnarmeirihlutinn er í og ekki undan því vikist að horfa til þess. Það hlýtur jafnframt að vera töluvert umhugsunarefni, a.m.k. fyrir mitt leyti sem sit í stjórnarandstöðu, ef staðan er svona, sem hún klárlega er. Þá verður maður auðvitað að líta í eigin barm og velta því fyrir sér hver raunverulega staðan er. Er ákveðin pattstaða í málinu? Af hverju skyldi ég segja það? Vegna þess að ég er þeirrar skoðunar að við eigum að hægja á ferlinu og taka minni og færri kafla sem er meiri sátt um. Því hefur okkar þingflokkur og hinn hluti stjórnarandstöðunnar talað fyrir og eins hv. þingmenn Framsóknarflokksins. Við verðum auðvitað að gera okkur grein fyrir því að um leið og við gerum þá kröfu að menn fari að vanda sig, gera betur og hlusta á okkur er gerð krafa um vantrauststillögu af hálfu Hreyfingarinnar. Þá er kannski mikilvægast fyrir þingmenn stjórnarandstöðunnar, eins og mig, að hugsa um hver hin raunverulega staða er. Geta hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar til að mynda skoðað að fara að nýta þá vinnu sem hefur farið fram, taka heldur færri kafla og fara skynsamlegri leið, að mínu mati alla vega? Hafa þeir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar kannski ekkert val af því að það vofir yfir þeim einhver hamar af hendi Hreyfingarinnar? Það kom mjög skýrt fram hjá hv. þm. Þór Saari. Ég held að það sé umhugsunarefni fyrir okkur í stjórnarandstöðunni, menn verða að tala skýrt um hvernig yrði staðið að svona hlutum. Það þýðir ekkert að tala um hlutina öðruvísi en þeir eru og ef menn vilja taka stjórnarskrármálið öðrum tökum verður auðvitað að gera samhliða kröfu um að menn stökkvi ekki á sömu sekúndunni yfir á einhverja vantrauststillögu. Það er að minnsta kosti mín skoðun.

Ég held hins vegar að við þurfum líka að spyrja okkur að því hvort það hafi í raun og veru verið skynsamlegt að fara í breytingar við þær aðstæður sem við vorum í þegar við ákváðum að endurskoða stjórnarskrána. Það er eitthvað sem við getum lært af. Ég held að við ættum að hugsa um það í framtíðinni. Ég held líka að það sé mikilvægt að þær breytingar sem hafa verið gerðar — hv. þm. Skúli Helgason kom t.d. inn á þær í ræðu sinni og þótt ég sé auðvitað ekki sammála hv. þingmanni í öllum atriðunum sem hann kom inn á er umhugsunarvert hvort þetta ferli gæti orðið til þess að við þróuðum breytingarnar öðruvísi og stæðum að þeim á annan hátt en hefur verið gert. Það gæti vel verið að það mundi skila sér til framtíðar, ég held það.

Virðulegi forseti. Ég hef bara setið þetta kjörtímabil á þingi og muni jafnvel ekki sitja fleiri. Maður á þó aldrei að segja aldrei og þó svo ég sitji ekki á næsta þingi getur vel verið að ég reyni að koma inn á þarnæsta eða þar á eftir. Mjög þingreyndir menn hafa tjáð mér að spennustigið hafi verið töluvert hátt á þessu þingi. Það hefur kannski verið ívið hærra í þessu starfsumhverfi undanfarin fjögur ár en hefur verið á undanförnum árum eða áratugum. Það er líka spurning hvort við ættum að hugsa um hvort það væri skynsamlegt að fara í breytingarnar við þær aðstæður, það er eitthvað sem við skulum hugsa um og reyna að læra af í framtíðinni. Við þurfum ekki að vera með eitthvert uppgjör. Mér finnst eins og þetta fjalli allt um að það verði helst að vera einhver sem vinnur og einhver sem tapar og menn geta ekki nálgast verkefnið út frá því hvernig það væri skynsamlegast fyrir alla. Þetta er nú einu sinni stjórnarskráin okkar en ekki bara einhverra stjórnmálafla.

Þegar ég segi að spennustigið hafi verið mjög hátt held ég að það hafi endurspeglast í dag í upphafi þingfundar, bæði þegar greitt var atkvæði um hvort þingfundur gæti staðið lengur en gert er ráð fyrir í þingsköpum og þegar menn fóru að ræða afgreiðslu á einum nefndarfundi. Ég verð að segja að það er oft sem ég hef dáðst að rósemi hæstv. forseta, að geta haldið ró sinni í þeim aðstæðum sem oft skapast í þinginu. Ég verð að viðurkenna það að ég hefði ekki treyst mér til að gera það við öll þau skilyrði sem hæstv. forseti hefur þurft að reyna að hafa stjórn á fólki. Það er líka umhugsunarvert fyrir okkur.

Ég held að ef við hugsum rökrétt, nú ætla ég að reyna að nálgast málið þannig, hvað mundi gerast ef við tækjum þá kafla stjórnarskrárinnar sem við værum kannski næst hvert öðru í að reyna að breyta? Væri það skynsamlegt, sérstaklega í ljósi aðstæðnanna sem við erum í? Við erum í aðstæðum sem við verðum auðvitað að reyna að átta okkur á. Hvað mundi gerast? Væri það eitthvað mjög slæmt? Ég hugsa ekki. Ég held að ef við næðum að klára ákveðna kafla stjórnarskrárinnar og geymdum aðra fram á næsta kjörtímabil mundi ekki gerast neitt stórkostlegt, ég held að það væri allt í lagi. Við megum ekki og eigum ekki að nálgast verkefnin svona, eins og það sé annaðhvort allt eða ekkert. Því miður er það oft þannig og við sjáum líka ef við hugsum aðeins lengra að það er ekki bara hér. Förum yfir það þegar stjórnlagaráðið skilaði tillögum sínum á sínum tíma, við sáum mismunandi viðbrögð einstakra aðila sem sátu þar. Sumir komu fram og sögðu: Þetta hér er hið fullkomna plagg. Það má hvorki breyta punkti né kommu.

Svo eru aðrir sem sögðu: Jú, þetta er auðvitað mikilsvert. Og alltaf var gert ráð fyrir því, eða þeir einstaklingar nálguðust verkefnið að minnsta kosti þannig, að það væri skynsamlegt fyrir þingið sem hefur stjórnarskrárvaldið að gera þetta þannig að menn tækju ákveðna kafla og álagsprófuðu þá, eins og stundum er sagt, eða bæru þá saman við löggjöfina eins og hún er. Það væri skynsamlegt að mati þess fulltrúa sem sat í stjórnlagaráði. En ég verð að viðurkenna að við nálgumst málin oft þannig að það er annaðhvort allt eða ekkert og ég ætla ekkert að undanskilja mig neitt í því, hvorki mig né minn þingflokk. Ég held að það sé ákveðið umhugsunarefni fyrir okkur öll.

Ég held að það væri skynsamlegt að menn settust niður og drægju andann. Það verður líka að hafa það í huga sem ég sagði í upphafi ræðu minnar. Við sem erum í stjórnarandstöðunni getum ekki gert þessa kröfu miðað við þær upplýsingar og það sem hefur komið fram í þingsal í þessum stól hér um þær hótanir sem vofa yfir ríkisstjórninni. Ef við gerum kröfu um að vinnubrögðunum og forgangsröðuninni við vinnubrögðin við stjórnarskrána sé breytt verðum við líka að hugsa um að það gerist ekki þannig að það sé stokkið á einhverja vantrauststillögu daginn eftir. Þannig er staðan og við skulum ekki að tala öðruvísi um hana en hún er.

Við erum með fullt af verkefnum núna á þessu þingi, sem er ekki langur tími eftir af, fullt af brýnum verkefnum og ég held að það sé breið samstaða um mörg hver þeirra. Þess vegna held ég að það væri mjög hyggilegt að við stilltum dagskránni og vinnunni þannig upp að við nýttum þótt ekki væri nema þá síðustu daga til að nálgast verkefnin. Það er mikilvægt að við gerum það alltaf og við höfum auðvitað gert það. Ég er ekki að halda því fram að það hafi allt verið unnið svona en við klárum allt of sjaldan mikilvæg mál. Ég held að það væri til farsældar fyrir þjóðina í stað þess að vera í pólitískum hanaslag. Ég sé alveg fyrir mér hvernig þetta verður. Það verður talað um stjórnarskrána þangað til þingi verður slitið. Er það það sem við viljum? Er það það sem þjóðin þarf? Þetta liggur alveg fyrir. Það skiptir engu máli hvort við fundum á kvöldin, um helgar og á nóttunni, það verður bara erfiðara, spennustigið hækkar og fólk verður pirraðra. Þetta er umhverfið og við getum ráðið því sjálf.

Það er líka mjög dapurlegt ef maður hugsar um þennan vinnustað en ég held að það séu fáir vinnustaðir á landinu sem hafa jafngott og vandað starfsfólk og er hér. Það er alveg sama hvar starfsfólkið er, hvort það er á nefndasviðinu eða hér, það skiptir engu máli því heilt yfir er starfsfólk Alþingis afskaplega vandað þótt við höfum ekki borið gæfu til að nýta þá krafta til uppbyggingar og stöndum hér í „ströggli“. Ég held að við ættum að reyna að nýta þessa fáu daga til uppbyggingar. Þess vegna segi ég að ég held að það gerist ekkert stórkostlegt. Það mun enginn sigra eða tapa, við megum ekki líta á það þannig. Það er mjög mikilvægt því þannig klárast verkefnin.

Ég held líka að allflestir ef ekki allir hv. þingmenn líti á athugasemdir þegar þær berast og ég hef verið að reyna að klára mig í gegnum þær. Þetta eru mikil gögn og lítið fjallað um þau í minni fagnefnd, þær ábendingar og athugasemdir sem koma fram, ég verð að viðurkenna það. Ég ætla engum öðrum að gera það svo við höfum það á hreinu, svo ég kjafti ekki neina vitleysu. Ábendingarnar frá þessu góða fólki, alveg sama hver það er innan hvaða greinar sem er — það er ekki hugmyndin hjá fræðimönnunum eða þeim sem gefa umsagnirnar og eru búnir að leggja mikla vinnu í þetta allt. Ég held að það sé til að leiðbeina okkur til betri vegar. Ég held að fólkið sem gefur umsagnir og leiðbeiningar sé ekki á móti því að breyta stjórnarskránni, alls ekki. Ég held að þær séu til að reyna að leiðbeina okkur, til að við höfum upplýsingarnar í hendi. Síðan getum við auðvitað haft mismunandi skoðanir á þeim og það er eðlilega staða, hvort okkur finnst við vera búin að bregðast við þeim þannig að tekið hafi verið tillit til þeirra. Við sjáum það auðvitað hver með sínum augum, það er bara þannig. En ég verð að viðurkenna að það eru mjög margar ábendingar sem koma fram sem eru umhugsunarefni, a.m.k. fyrir mig og væntanlega fyrir alla. Það kemur víða fram í athugasemdunum að verið er að benda á að markmiðin séu góð en þá verðum við líka að vera viss um að við náum þeim markmiðum sem við setjum fram. Það er mjög mikilvægt. Ég ætla engum það að vilja breyta stjórnarskránni bara til að breyta henni og vera kannski sama um hvernig það er gert, það má ekki skilja mig þannig. En ég held að við þurfum aðeins að hægja á ferðinni. Ég held að það sé mikilvægt að nálgast verkefnið þannig.

Það er líka umhugsunarefni fyrir okkur vegna þess að við höfum við gerð lagafrumvarpa og þingsályktunartillagna, og sérstaklega lagafrumvarpa, fengið ýmsar góðar ábendingar sem við hefðum átt að taka meira mark á. Ég held að það sé staðreynd að við hefðum getað gert það. Reynslan segir manni að maður eigi að nálgast það á þann hátt og ég tel rétt að gera það.

Það hefur komið fram að mikilvægt væri að álagspróf, eins og menn kalla það, fari fram eða samanburður á breytingunni á stjórnarskránni við þá löggjöf sem er núna í gildi. Það er auðvitað gríðarlega mikilvægt og ég ætla ekki að eyða neinum tíma í ræðu minni í að fjalla um hvort það hefði verið skynsamlegra að taka málið inn núna og bíða eftir þessu eða hinu álitinu, við erum stödd hérna núna. Ég held að við verðum að reyna að vinna okkur út úr þessari stöðu. Ég tel það mikilvægt.

Ég held líka að það sé í raun og veru ákallið frá þjóðinni. Ég las yfir ræðu forseta Íslands við þingsetninguna. Ég held að það væri hollt fyrir okkur öll að lesa hana og jafnvel líka fyrir mig. Það eru flestir sem hlustuðu á hana en ég las hana yfir. Það er nefnilega nokkuð merkileg leiðsögn í ræðunni en við föllum kannski í þá gryfju að vera með og á móti og heyrum eða túlkum hlutina mismunandi. Gagnrýnin er mjög beitt og hún er líka til umhugsunar fyrir okkur vegna þeirrar stöðu sem við erum í.

Ég ætla að fjalla um 39. gr. sem snýr að breytingunum í sambandi við kjördæmaskipanina og kosningafyrirkomulagið. Ég ætla að segja ykkur að ég hef ferðast töluvert um mitt kjördæmi sem er víðfeðmt og stórt. Ég gerði mikið af því í kjördæmavikunni og geri það yfirleitt alltaf þegar ég hef tíma og tala við mikið af fólki. Það hefur enginn kallað eftir því við mig að það þurfi að breyta stjórnarskránni. Þar með er ég ekki að gera lítið úr þeim eða vanvirða skoðanir þeirra sem vilja gera ákveðnar breytingar á henni. Það má ekki stilla því þannig upp. Sumir hafa áhuga á því og aðrir á öðru. Eins og ég hef sagt held ég að mikilvægasta verkefni okkar núna sé að snúa okkur að því hvernig við gætum leyst skuldamál heimilanna, skuldamál fyrirtækjanna, gjaldeyrishöft o.s.frv. Ég starfa hins vegar í hv. fjárlaganefnd og ég er kannski frekar með fókusinn á því af því að mér finnst verkefnin þar prívat og persónulega geigvænleg og hef miklar áhyggjur af stöðu okkar hér sem þjóðar, fjárhagsstöðu eða stöðu ríkissjóðs. Þess vegna er fókusinn minn frekar á því en á breytingunum hér. Ég mundi frekar vilja eyða kröftunum í þau verkefni en að ræða ákveðnar breytingar á stjórnarskránni. En aðrir vinna í öðrum nefndum, þess vegna eru fagnefndir, og menn nálgast verkefnin eftir því svo það er kannski umhugsunarefni fyrir okkur. Það er auðvitað mikilvægt fyrir okkur að gera okkur grein fyrir því að við eigum ekki alltaf að vera í með eða á móti liðinu. Við þurfum aðeins að fara að hugsa það upp á nýtt.

Ég hef reyndar aldrei skilið það en þegar að ég kom inn á þing eftir að hafa starfað lengi í sveitarstjórnum, meiri hluta og minni hluti sveitarstjórna — það voru bara tvær vikur fyrir kosningar og tvær vikur eftir kosningar. Eftir það var það búið, alla vega þar sem ég þekki til. Auðvitað er líka allt í upplausn í sumum. Hvernig er þá staðan akkúrat í því samfélagi? Hún er mjög hættuleg. Ef við förum í lítil samfélög þar sem eru miklar deilur er búið að kljúfa íbúana í viðkomandi samfélagi í tvennt. Það er búið að skipa þeim í fylkingar og í því lendum við líka hér ef þetta er gert svona.

Núna ætla ég að fjalla um 39. gr. Ég er búinn að lesa í gegnum þetta, bæði hvað varðar tillögurnar og eins líka náttúrlega nefndarálit meiri hlutans og minni hlutans og síðan þær athugasemdir sem eru komnar fram. Ég verð að viðurkenna að þetta var mjög flókið í upphafi og erfitt að átta sig á því hvað átt væri við. Ég gerði mér ekki alveg grein fyrir því en það sem stendur er að hægt sé að bjóða fram kjördæmalista og landslista. Ég áttaði mig ekki alveg á þessu fyrr en ég fór að kafa í greinargerðina með frumvarpinu og ég hef ákveðnar áhyggjur af því. Þetta eru auðvitað breytingartillögur meiri hlutans, að mínu mati til góðs, en skilur málið eftir dálítið opið að mínu viti.

Ég ætla að fara að nálgast 39. gr. þar sem er gert ráð fyrir því í frumvarpinu sjálfu, svo ég vitni beint í það, með leyfi forseta, að:

„Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt. Heimilt er að skipta landinu upp í kjördæmi, flest átta. Stjórnmálasamtökum skal heimilt að bjóða fram kjördæmislista og landslista. Frambjóðandi má vera á landslista og kjördæmislista sömu samtaka.“

Ég staldraði töluvert við þetta en útskýringarnar á því eru í greinargerðinni með frumvarpinu, þar er farið yfir það. Síðan þegar maður les meirihlutaálitið þar sem er fjallað er um þetta og breytingartillögurnar og athugasemdir minni hlutans í framhaldi af því verð ég að viðurkenna að það er skilið eftir þannig, ég veit ekki hvort það er heppilegt orðalag að segja sem svo að menn taki allt sem er ákveðinn ágreiningur um og setji til hliðar og ætli síðan að setja það í sérlög. Maður staldrar auðvitað við það. Þarf það að vera þannig í stjórnarskránni að það sé alveg klárt og kvitt hvernig það eigi að vera? Við getum haft mismunandi skoðanir á því. Ég er á þeirri skoðun að það þurfi að vera fastara, hvernig þetta er gert. Mig langar, með leyfi forseta, að vitna í nefndarálit meiri hlutans þar sem segir:

„Með þeirri breyttu gerð 39. gr. sem meiri hlutinn leggur til væri í fyrsta sinn í íslenskri stjórnarskrá gerð krafa um persónukjör í kosningalögum. Stjórnmálasamtökum er í þeim efnum gefið svigrúm en um leið ábyrgð. Þeim skal heimilt að bjóða fram óraðaða lista, þar sem kjósendur fá að velja á milli frambjóðenda og ráða þá alfarið hverjir af listanum setjast á þing. Kjósi samtök að bjóða fram raðaðan lista er það samt áskilið að merkingar kjósenda við einstaka frambjóðendur séu virtar og hafi áhrif þegar kemur að því að ráðstafa sætum listans til frambjóðenda hans.“

Síðan þegar maður áttar sig betur á því hvað þetta þýðir og gerir sér grein fyrir því verður maður að sjálfsögðu skoða grunninn í því sem kemur fram í breytingartillögu meiri hlutans. Það er auðvitað sjónarmið hvort eigi að hafa það alfarið inni í sérlögum sem snýr að kosningum eða hafa sterkari stoð undir því í stjórnarskránni. Ég er staddur þar núna að vilja hafa sterkari stoð. Síðan þarf að velta fyrir sér kostum og göllum af því að ef við gerum þetta svona erum við í raun og veru að færa prófkjörin inn í kosningarnar, ef við segjum sem svo, vegna þess að þegar menn fara að bjóða fram óraðaðan lista mun það gerast sjálfkrafa að prófkjörin færast inn í kosningarnar sjálfar en ekki eins og við þekkjum það í dag. Það getur vel verið að það sé kostur. Ég verð að viðurkenna að þegar ég fór að lesa athugasemdirnar sem koma fram, ég var að reyna að klóra mig í gegnum það allt saman, staldraði ég við. Þegar lesnar eru umsagnirnar frá sérfræðingum eða mönnum sem hafa miklu meira vit á þessu en sá er hér stendur og finnst ákvæðin sem eru í breytingunum frekar óljós og óskýr, verður að viðurkennast að maður staldrar aðeins við.

Ég vil, með leyfi forseta, vitna í nefndarálit 1. minni hluta þar sem er einmitt verið að fjalla um það sem er í 39. gr. Ég byrja á að tala um athugasemd um jafnt vægi atkvæða sem er vitnað til að Birgir Guðmundsson hafi gert í umsögn sinni:

„Birgir Guðmundsson gerði í umsögn sinni m.a. athugasemdir við fyrirkomulag alþingiskosninga og telur að ef ákvæðin fá að standa óbreytt í stjórnarskrá sé líklegt að þau muni leiða til umtalsverðrar sundrungar og óvissu í stjórnmálum, auk þess sem veruleg hætta sé á að landsbyggðin beri mjög skarðan hlut frá borði. Bendir hann á að átakalína milli höfuðborgar og annarra landshluta muni skerpast verulega og sundra þjóðinni upp í fylkingar og að slíkt væri mjög í andstöðu við yfirlýstan tilgang breytinganna sem er m.a. að skapa grundvallarsáttmála fyrir þjóðina alla, auka á pólitískt jafnrétti og jafna vægi atkvæða milli landsbyggðar og höfuðborgar.“

Þetta er mjög áhugaverð og alvarleg ábending að hugsa um. Ég er á þeirri skoðun ef við förum þá leið þurfum við að ræða hvort við viljum gera landið að einu kjördæmi. Það eru auðvitað kostir og gallar við það en ég held að við þurfum að taka það þannig, hvort við eigum að gera landið að einu kjördæmi. Ég segi fyrir mitt leyti að ef það verður gert, og eins og kemur fram hérna seinna er ekki skynsamlegt að gera það svona, köllum við auðvitað á umræðu um hvort það sé ekki mikilvægt að jafna þá líka eitthvað annað. Það blasir við að jöfnun atkvæðisréttar þarf að ræða í samhengi við margt annað. Það fyrirkomulag sem er í Washington hefur oft verið nefnt í þessum ræðustól þar sem stjórnsýslan er öll hér á höfuðborgarsvæðinu, þurfum við ekki líka að jafna aðgang eins og þeir? Að mínu viti er það er umræða sem við þurfum að taka ef við ætlum að fara þá leið.

Ef ég fæ síðan að koma aðeins inn á það þar sem er í raun og veru fjallað um uppstokkun á kjördæmabreytingu, sem kæmi þá í kjölfarið, og vitna öðru sinni í álit 1. minni hluta, hv. þm. Birgis Ármannssonar og Ólafar Nordal, er vitnað aftur í Birgi Guðmundsson, með leyfi forseta:

„Birgir bendir einnig á að kosningafyrirkomulagið sjálft, þ.e. persónukjör þar sem rúmur helmingur þingmanna að minnsta kosti er kosinn af landslista, minnkar enn möguleika landsbyggðarinnar. Þetta stafar af því að yfirburðir fjöldans á höfuðborgarsvæðinu skapa margfeldisáhrif sem vinna gegn áhrifum kjósenda af landsbyggðinni. Landslisti gerir landið í raun að einu kjördæmi án nokkurra skilrúma fyrir meiri hluta Alþingis. Þannig mun þungamiðjan óhjákvæmilega verða hjá meiri hlutanum á höfuðborgarsvæðinu. Sá möguleiki sem þetta kosningakerfi kallar fram, að einsleitir hagsmunir hóps eða hópa á höfuðborgarsvæðinu í meirihlutastöðu verði knúnir fram jafnvel á kostnað stórra minnihlutahópa eins og landsbyggðarinnar, er enn magnaður upp með ákvæðinu um þjóðaratkvæðagreiðslur í 65. gr. frumvarpsins.“

Ég held að það sé mikilvægt að við förum mjög vandlega yfir þetta, hugsum það mjög vel og gerum okkur grein fyrir því hvað það þýðir í raun og veru. Við eigum að taka tillit til þeirra athugasemda sem koma fram hér. Ég held því ekki fram að ekkert tillit hafi verið tekið til þeirra, ég fer yfir breytingartillögurnar á eftir. Það er mikilvægt að við stöldrum við og ræðum það. Af hverju ekki að hafa eitt kjördæmi ef þetta er niðurstaðan? Það er mitt mat, reyndar eftir stutta þingreynslu eða eitt kjörtímabil. Í Norðausturkjördæmi til að mynda fækkar þingmönnunum úr níu í átta. Ég segi fyrir mitt leyti að ef kjördæmi færu að vera með þrjá eða fjóra þingmenn og það væri jafnvel þannig að ekki allir stjórnmálaflokkar ættu þingmann úr viðkomandi kjördæmi, við skulum segja ef það væru fimm stjórnmálaflokkar sem ættu kjörna fulltrúa og ekki allir ættu fulltrúa í kjördæminu, held ég að við yrðum að taka heiðarlega umræðu um að gera landið að einu kjördæmi.

Við sáum hvað gerðist í sambandi við kosningarnar til stjórnlagaráðs. Við skulum fara yfir kosti og galla þess sem gerðist þar. Ég held að við þurfum að ræða það áður en við förum í svona breytingar og þótt vitnað sé til aðstæðna annars staðar held ég að við þurfum að gera það.

Það er ekki einungis Birgir Guðmundsson sem gerir athugasemd við þetta. Það eru fleiri sem benda á það hér, t.d. Þóroddur Bjarnason og ég ætla, með leyfi forseta, að vitna í það sem kemur fram í 1. minnihlutaálitinu:

„Þóroddur Bjarnason telur frumvarpið fela í sér afar flókið og ógagnsætt fyrirkomulag kosninga og að það feli í sér umtalsverða hættu á lýðræðishalla gagnvart þeim 37% kjósenda sem búa á landsbyggðinni. Telur hann ákvæðið leiða til þess að landsbyggðin fái í mesta lagi 11 kjördæmakjörna þingmenn í stað 29 í núverandi kerfi og 23 kjördæmakjörinna þingmanna miðað við jafnt vægi atkvæða í óbreyttri kjördæmaskipan. Bendir hann á að vegna ákvæða um persónukjör fari prófkjör og þingkosningar fram saman og meiri hluti kjósenda listans ráði þannig hvaða einstaklinga minni hlutinn kýs í raun. Þannig sé íbúum landsbyggðarinnar og öðrum minnihlutahópum gert ókleift að kjósa sína fulltrúa í óröðuðu landskjöri, að loknum kosningum falla listaatkvæði minni hlutans alltaf í skaut þeim frambjóðendum sem meiri hlutinn styðji.“

Síðan kemur niðurstaða 1. minni hluta þar sem segir að komið hafi verið til móts við þær ábendingar og þær blasa auðvitað við manni þegar maður les breytingartillögur meiri hlutans. En minni hlutinn gerir reyndar athugasemdir við að það þurfi að vera alveg skýrt í stjórnarskránni hvernig kosningafyrirkomulagið eigi að vera.

Ég ætla í framhaldi af þessari umfjöllun minni, eftir bollaleggingar mínar hérna, að fara í það sem skiptir öllu máli og fara í breytingartillögu meiri hlutans út af þeim ábendingum eða athugasemdum sem hafa komið fram við meðferð málsins. Meiri hlutinn gerir þær breytingartillögur við málið að 39. gr. orðist svo, ég vil fá að vitna beint í tillögurnar, með leyfi forseta:

„Á Alþingi eiga sæti 63 þingmenn, kosnir leynilegri kosningu til fjögurra ára.“ Það eru varla miklar deilur um það. „Atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vega jafnt eftir því sem frekast er unnt.“

Ég spyr mig sem leikmaður sem á ekki sæti í hv. stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd: Er þetta nægilega sterkt svona í stjórnarskránni: „eftir því sem frekast er unnt“? Er verið að vísa til þess að menn gætu útfært það nánar í kosningalöggjöfinni? Ég átta mig ekki alveg á því. Það er það fyrsta sem kemur upp í hugann. Ég velti því fyrir mér hvort það sé skynsamlegt að hafa ákvæðið svona inni eða setja alveg skýrar línur og segja að það skuli vera útfært nánar í kosningalöggjöfinni, það getur vel verið. Á eftir kemur sú setning að heimilt sé að skipta landinu upp í kjördæmi.

Við heyrðum fyrr í dag í umræðum og andsvörum hv. þingmanna hvað það þýðir í raun og veru, hvort það þýðir sjálfkrafa að landið verði eitt kjördæmi nema því verði skipt upp. Síðan kemur auðvitað fram í frumvarpinu sjálfu að það geti orðið allt að 8 kjördæmi. Það er mikilvægt að það liggi alveg fyrir hvernig það verður.

Ég staldra reyndar enn þá dálítið við það sem kemur fram hér, að listar sem eru boðnir fram í kjördæmum mega vera óraðaðir eða raðaðir samkvæmt nánari fyrirmælum í lögum. Þá er væntanlega verið að vísa til kosningalaganna, það segir sig sjálft. Frambjóðendur mega vera á fleiri en einum lista sömu stjórnmálasamtaka. Ég held að við þurfum að taka heiðarlega umræðu um hvað það þýðir miðað við ábendingarnar hérna, það liggur alveg fyrir að það þurfi að gera. Þetta er auðvitað persónukjör og það er verið að auka vægi þess en ég er dálítið hugsi yfir því hvort við eigum að færa prófkjörin alveg inn í það sem snýr að kosningunum sjálfum. Svo kemur athugasemd frá Jafnréttisstofu sem ég þarf ekki að fara yfir, hv. þingmenn þekkja hana og þær umræður sem eru í öllum stjórnmálaflokkum um það sem snýr að svokölluðum kynjakvótum. Við þurfum auðvitað að fara vel fyrir það.

Síðan komum við að breytingunum á kjördæmamörkunum eða tilhöguninni. Það voru menn líka að ræða í andsvörum í dag, þ.e. það þurfi 2/3 hluta atkvæði á Alþingi til að gera breytingarnar á kjördæmaskipaninni sem slíkri. Það þarf að gerast með ákveðnum tímamörkum sem er eðlilegt en ég velti því fyrir mér út af því bráðabirgðaákvæði sem er inni, að hægt sé að gera það eins og sagt er í fyrsta skiptið eða fyrir næstu kosningar með einföldum meiri hluta.

Þetta er auðvitað hlutur sem við þurfum að ræða og ég er að reyna að leggja mitt til málanna því að eins og ég segi á ég ekki sæti í viðkomandi nefnd, hef ekki fjallað um málin og þekki þau í raun og veru ekki eins mikið og þeir hv. þingmenn sem sitja þar. Það er mjög brýnt og væri gott að fá viðbrögð við hugleiðingum mínum í þessari ræðu. Til þess erum við að fjalla um málið og eigum hér málefnalegar umræður og rökræður.

Ég held að það væri líka mjög þarft að við fjölluðum um það hvort við, ef við stígum þessi skref hér, gerum landið að einu kjördæmi. Ég held að við verðum að taka efnislega umræðu um það. Fyrir mitt leyti sé ég það ekki geta gerst ef menn ætla að hafa kjördæmaskipanina eitthvað í samræmi við það sem er í dag, eða vilja menn breyta henni? Ég held að við þurfum að gera það og það er kannski eitthvað sem við þurfum að ræða, hvort við viljum hafa það þannig í stjórnarskránni og vísa þá til þess í þeim hlutum sem snúa að breytingum á kosningalöggjöfinni sjálfri. Það getur vel verið að það sé skynsamlegt. Ég verð að segja að ég staldra sérstaklega við þá setningu hér að atkvæði kjósenda alls staðar á landinu vegi jafnt eftir því sem frekast er unnt og heimilt sé að skipta landinu upp í kjördæmi. Ég geri það út af stjórnarskránni. Það getur vel verið að þetta sé í góðu lagi en ég staldra við að það skuli vera í stjórnarskránni. Við vitum að grunnstoðin í löggjöfinni, og kletturinn í hafinu eins og sagt er, er stjórnarskráin sem hin lögin byggja öll á svo það er mikilvægt að við nálgumst verkefnin.

Til að ítreka það sem ég sagði í upphafi held ég að það sé mjög mikilvægt að allir horfi í spegil, sama hvar þeir eru staddir í flokki, og reyni að leita lausna svo við getum nálgast það verkefni sem við stöndum frammi fyrir við breytingarnar á stjórnarskránni þannig að það nýtist þjóðinni í stað þess að taka einhverja pólitíska slagi, hvort heldur sem er á degi eða nóttu.