141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:58]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru nokkur atriði sem ég hefði gjarnan viljað tala um en ég hef lítinn tíma. Eitt af því er sem sagt að hv. þm. Ásbjörn Óttarsson hefur áhyggjur af því að fyrirkomulag kosninga sé ekki nógu tryggt í stjórnarskrá. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur að tryggja meiri sveigjanleika, ekki síst þegar þau viðhorf sjálfstæðismanna birtast að það þurfi að vera erfitt að breyta stjórnarskránni. Við skulum ekki gleyma því að menn byrjuðu að kjósa í landinu áður en þeir áttuðu sig á því að tölvur yrðu nokkurn tíma til og það yrðu til nýjar aðferðir við að kjósa. Við þurfum að hafa meiri möguleika á að bregðast við nýjum aðstæðum. Við höfum ekki hugmynd um hvernig menn koma til með að nýta áhrif sín í framtíðinni.

Ég hef heldur ekki ægilegar áhyggjur af jöfnun atkvæðisréttar eins og hv. þingmaður. Ég held að þær áhyggjur séu óþarfar. Við erum ekki annaðhvort landsbyggðarmenn eða höfuðborgarbúar. Af því að hv. þingmaður vitnaði í hvernig stjórnlagaráð væri samsett þá voru þar margir sem eru fæddir úti á landi og búa í höfuðborginni og aðrir fæddir í höfuðborginni og búa úti á landi. Við erum alla vega fólk.