141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[21:59]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé mikilvægt að við reynum að forðast að nálgast umræðuna með þeim hætti að segja: Í ljósi þeirrar reynslu að sjálfstæðismenn vilja eða eru tregir til að gera. Ég held að við eigum ekki að nálgast þetta þannig.

Ég get líka tekið nokkuð langa ræðu um vinnubrögðin og farið í þann gír, ég get það alveg. Ég mun væntanlega gera það í næstu ræðu ef ég fæ mikla hvatningu til þess.

Ég benti hins vegar á og var að velta fyrir mér — það getur verið að hv. þm. Logi Már Einarsson hafi ekki sömu áhyggjur og ég og það er þá bara í fínu lagi, þá nálgumst við verkefnin hvor með sínum hætti — þeirri spurningu hvort það væri vítt í stjórnarskránni að jafna ætti atkvæðavægi eftir því sem frekast er unnt. Ég velti því bara upp. Ég var ekki með neinar fullyrðingar um það. Ég vildi nálgast verkefnin þannig. Er þetta eitthvað sem við þurfum að ræða frekar eða er þetta bara í lagi eða er þetta ekki í lagi? Það held ég að sé aðalatriðið.