141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:03]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er sem fyrr í þessari umræðu, ég vil segja að hún sé mjög efnisleg og yfirgripsmikil og góð.

Ég ætla að staldra aðeins við jafnt vægi atkvæða. Þær breytingar sem nefndin gerir er, eins og hv. þingmaður sagði, að atkvæði kjósenda alls staðar að af landinu skuli vega jafnt eftir því sem frekast er unnt. Rökin með og á móti þekkjum við. Mig langar hins vegar til að spyrja hv. þingmann hvort hann sé í sjálfu sér ósammála því að allir kjósendur eigi að hafa sama atkvæðisrétt óháð búsetu og öðrum félagslegum aðstæðum almennt. Við höfum það í þjóðaratkvæðagreiðslum. Við höfðum það í atkvæðagreiðslunum um Icesave-samningana. Þá vó atkvæði mitt sem er búsett í Reykjavík og hv. þingmanns sem er búsettur í Norðvesturkjördæmi algerlega jafnt. Sama gildir um forsetakosningar. Hver er munurinn, hv. þingmaður?