141. löggjafarþing — 80. fundur,  13. feb. 2013.

stjórnarskipunarlög.

415. mál
[22:08]
Horfa

Frsm. meiri hluta stjórnsk.- og eftirln. (Valgerður Bjarnadóttir) (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir ágæta ræðu. Ég er nú ekki vön að gefa einkunnir en mér fannst þetta góð ræða að því leytinu til að það er alveg hárrétt sem hann sagði að við höfum mismunandi skoðanir á mörgum hlutum. Og það er okkar hér í þinginu að taka ákvarðanir og við hljótum að gera það eftir þeim mismunandi skoðunum sem við höfum.

Ég vil líka segja varðandi álit sem við fáum frá sérfræðingum að auðvitað lítum við á þau. Við höfum líka mismunandi skoðanir á þeim, við höfum mismunandi skoðanir, og meira að segja sérfræðingar hafa mismunandi skoðanir og það er okkar, það er eitt aðalverkefni stjórnmálamannsins, að taka ákvarðanir og segja af eða á.

Hvað varðar greinina um alþingiskosningar ætla ég að koma inn á hana í mínu síðara andsvari ef hv. þingmaður gefur mér tækifæri til.