141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

framhald stjórnarskrármálsins.

[10:33]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Frú forseti. Ég kalla eftir skýringum frá hæstv. forsætisráðherra á því hvernig haldið er á stjórnarskrármálinu af stjórnarflokkunum í þinginu. Í mínum huga er algjörlega óskiljanlegt hvernig málið er keyrt áfram þvert á allar ráðleggingar sérfræðinga og nú síðast þrátt fyrir álit Feneyjanefndarinnar sem eitt og sér kallar á margra daga, ef ekki margra vikna, vinnu við að endurmeta ýmsa grundvallarþætti málsins.

Er virkilega svo illa komið fyrir stjórnarflokkunum að ein lítil hótun frá Hreyfingunni um vantrauststillögu haldi málið ekki áfram í óbreyttri mynd veldur því að menn sjá sér ekki annað fært en að berja höfðinu við steininn og halda áfram eins og ekkert hafi í skorist? Er það virkilega svo? Er svo illa komið fyrir stjórn Jóhönnu Sigurðardóttur, hæstv. forsætisráðherra, að hún sé búin að mála sig algjörlega út í horn?

Við vitum bæði, ég og hæstv. forsætisráðherra, að fjölmargir stjórnarliðar úr báðum stjórnarflokkunum hafa áhyggjur af þessu máli, hafa mikla fyrirvara og vilja fara hægar í sakirnar. En það er ekki gert. Er það vegna þess að ríkisstjórnin hefur grafið sig svo djúpt ofan í holuna að hún sér ekki leiðina upp úr henni? Er það vegna þess að menn ætla af ákveðinni léttúð bara að klára málið þótt þeir viti að það verður ekki að lögum nema það verði jafnframt staðfest á nýju þingi? Er það léttúðin gagnvart formreglunum?

Hvað veldur því að menn taka ekki alvarlegar en raun ber vitni það mikilvæga hlutverk þingsins að endurskoða stjórnarskipunarlög almennilega með góðu tilliti til ábendinga frá okkar færasta fólki og setja málið í þann farveg að um það geti tekist breið sátt? Hvað veldur, hæstv. forsætisráðherra?