141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

framhald stjórnarskrármálsins.

[10:35]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er ekki verið að vinna að stjórnarskrárbreytingum af hálfu stjórnarliða undir einhverjum hótunum frá Hreyfingunni. Hér er fyrst og fremst unnið í samræmi við þjóðarvilja og þá niðurstöðu sem varð í þjóðaratkvæðagreiðslunni. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Stjórnarflokkarnir hafa farið mjög vandlega yfir þetta mál. Ég veit ekki hvort hv. þingmaður gerir sér grein fyrir því að það er búið að ræða þetta mál frá árinu 2009 í nærri 150 klukkustundir, og við erum þó ekki lengra komin en þetta, þar sem ákvæði um beint lýðræði og auðlindir voru mjög mikið rædd á árinu 2009. Sjálfstæðisflokkurinn kom í veg fyrir það mál og framgang þess. Við skulum vona að það verði ekki núna.

Það er líka mikilvægt að átta sig á því af því að Feneyjaálitið er mikið til umræðu að í því, sem ég legg til að við förum vandlega yfir, er ekki tekið tillit til 50 breytingartillagna sem stjórnarmeirihlutinn hefur gert. Þær snerta meðal annars þær athugasemdir sem fram koma í Feneyjaálitinu. Þá er ég að tala um kjördæmabreytingarnar og um mannréttindaákvæðin. (Gripið fram í.) Það eru gerðar mjög alvarlegar athugasemdir við þær tillögur sem lúta að stjórnskipaninni og við hljótum að skoða sérstaklega hvernig við förum með það mál, enda ákvað stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að bíða með það mál þar til Feneyjaálitið lægi fyrir. Þá hlýtur að vera farið sérstaklega yfir það mál og hvernig með það verði farið í þinginu.

Ég tel að málsmeðferðin í höndum stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar og meiri hluta þingsins hafi verið mjög góð. Það hefur verið farið vandlega yfir málið, tekið tillit til fjölda athugasemda sem vissulega (Forseti hringir.) liggja fyrir og ég vona að við berum gæfu til að ljúka þessu máli á Alþingi á farsælan hátt fyrir þjóðina.