141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

fjárhagsstaða Hörpu.

[10:47]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Málefni Hörpu hafa verið mjög til umræðu síðustu daga og vikur, bæði fjárhagsvandi Hörpu og stjórnunarvandi, og virðist sem verið sé að taka á hvoru tveggja. Hins vegar ganga margvíslegar sögur um fjárhagsvanda Hörpu og hvernig eigi að taka á honum. Þar á meðal eru að því er virðist margar tröllasögur, e.t.v. ýkjusögur og mikilvægt fyrir umræðuna að fá hluti á hreint í þessum efnum, þar á meðal um aðkomu ríkisvaldsins, m.a. ríkissjóðs, að fjárhagslegri endurskipulagningu Hörpu.

Það er óþarfi að hafa einhverjar hjásögur í gangi þegar staðreyndir liggja fyrir. Nú skal tekið fram að sá sem hér stendur var mikill fylgismaður þess að lokið yrði við smíði Hörpu á sínum tíma. Það hefði verið þjóðinni til vansa að skilja þetta hús eftir hálfklárað sem ævarandi minnisvarða um hrunið og hefði ekki orðið til að auka á sjálfstraust þjóðarinnar á erfiðum tímum. Þar fyrir utan er sá sem hér stendur mikill talsmaður þeirrar starfsemi sem þarna er inni, hvort heldur eru ráðstefnur eða menningarstarfsemi af margvíslegum toga. Menningarstarfsemi eins og sú sem þar fer fram breikkar atvinnusvið þjóðarinnar til mikilla muna og ég held að við verðum að fara að taka mark á þeirri starfsemi sem listamenn bjóða samfélaginu á hverjum tíma og er út frá hagtölum afskaplega mikilvæg.

Ég beini þeirri spurningu til hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra hver sé aðkoma ríkissjóðs að endurskipulagningu á fjárhag Hörpu. Hver er hún á þessu ári og inn í komandi framtíð? Er eitthvað til í þeim sögusögnum að kostnaðurinn nemi milljörðum af hendi ríkisins á komandi (Forseti hringir.) árum?