141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

fjárhagsstaða Hörpu.

[10:50]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa spurningu. Ég geri ráð fyrir því að þessi umræða fari aftur af stað af því að borgarstjórn og borgarráð eru að ganga frá sínum enda málsins. Við gerðum það á Alþingi við samþykkt fjárlaganna í desember og hvað ríkið varðar hefur í sjálfu sér ekki neitt breyst frá þeim upplýsingum sem þar komu fram.

Í stuttu máli sagt gengur samkomulag milli þessara þriggja aðila, Hörpu, ríkisins og borgarinnar, út á að ljúka langtímafjármögnun félagsins. Við greiningu á fjárþörf þessa félags hefur verið horft til þess að fjárhæð langtímaláns til 35 ára tæki til kostnaðar við byggingu og frágang hússins en fjárþörf umfram þær aðgerðir sem unnið er að til að ná jöfnuði verði borin með framlögum frá eigendum. Með þessum aðgerðum gefst félaginu svigrúm til að nýta hluta framlagsins til að styrkja rekstur hússins og svo má ekki gleyma að í gangi eru málaferli vegna deilna um greiðslu fasteignagjalda. Þau valda líka óvissu um endanlega þörf framlaga frá eigendum. Gert er ráð fyrir að við brúum hluta fjárþarfar með bráðabirgðaláni þar til endanlegur dómur fellur og þá verður ljóst hver fjárþörfin verður til framtíðar litið miðað við áætlanir hússins.

Þetta er í stuttu máli svona, gert er ráð fyrir eigandalánum, þ.e. brúarlánum, þar sem hlutir ríkisins eru rúmlega 400 milljónir. Þessu verður breytt í hlutafé samhliða lokafrágangi við endurfjármögnun á húsinu og síðan eru þetta eigandaframlög, þ.e. samkvæmt aðgerðaáætlun er hlutur ríkisins um 54% af 160 milljónum á þessu ári. Svona líta þessar tölur út. Hér er ekki um einhverja milljarða að ræða, hér er eingöngu um að ræða aðgerð eiganda til að koma þessum rekstri í betra horf (Forseti hringir.) og líka til að tryggja að hann geti orðið sjálfbær til lengri framtíðar.