141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

fjárhagsstaða Hörpu.

[10:52]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Það er augljóst að af því má meta að framlög ríkisins til þeirrar starfsemi sem fram fer í Hörpu eru ekki í námunda við þær tröllasögur sem riðið hafa húsum á undanliðnum dögum og vikum. Þær eru greinilega innan þeirra heimilda sem Alþingi hefur ákveðið samkvæmt fjárlögum. Hins vegar er mjög mikilvægt að sá umframkostnaður sem hlotist hefur af Hörpu á undanliðnum árum af hálfu ríkisins skekki ekki myndina af menningarmálum að öðru leyti. Sá sem hér stendur er þeirrar skoðunar að Harpa megi ekki verða til þess að draga úr framlögum til menningarmála annars staðar á landinu, eða annars staðar í Reykjavík ef svo ber undir.

Ég vil að öðru leyti halda þeirri spurningu áfram á lofti hver umframkostnaðurinn er af hálfu ríkisins til Hörpu (Forseti hringir.) frá því að samningurinn var gerður á árinu 2009.