141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

fjárhagsstaða Hörpu.

[10:53]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Frú forseti. Varðandi síðustu spurningu hv. þingmanns er ég ekki með þær tölur á mér en ég held að fyrsti samningurinn um Hörpu hafi verið gerður 2002. Þetta eru því eldri samningar og gamalt mál. Ég er ein af þeim sem var skeptísk á að ríkið ætti að ljúka þessu eftir hrunið, en engu að síður er ég mjög fegin að við gerðum það. Hún er mjög glæsilegt aðdráttarafl í Reykjavík fyrir ferðamenn sem og menningarlífið. Það sem er jákvætt að sjá í framtíðaráformum Hörpu, þá er ég að tala um nánustu framtíð, er að þar eru gerðar mjög varlegar áætlanir en engu að síður sjáum við mjög góðan stíganda, bæði í tekjum af tónleikahaldi og ráðstefnugestum. Þar eru sóknarfæri hússins sem ættu að geta skilað Hörpu miklum tekjum og þá vonandi tryggt að reksturinn verði sjálfbær og við getum notið þessa húss án þess að ríkið þurfi að koma með verulega fjármuni þarna inn til lengri tíma litið. Við þurfum þó að gera það á þessum tímum (Forseti hringir.) og í upphafinu og ég held að mönnum hafi alveg verið það ljóst á sínum tíma að menn þyrftu að styðja við húsið á meðan gestafjöldinn væri að stíga.