141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

kostnaður við samninga hjúkrunarfræðinga.

[10:57]
Horfa

velferðarráðherra (Guðbjartur Hannesson) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég fagna því að samningar náðust milli stjórnar Landspítalans og hjúkrunarfræðinga. Við deilum þeim óskum að þær uppsagnir sem þar voru lagðar fram verði dregnar til baka. Ég tek líka undir það með hv. þingmanni eftir að við höfðum rætt þetta við velferðarnefnd, og auðvitað höfum við ítrekað farið yfir stöðuna á Landspítalanum, að við munum aldrei reka jafnöflugan Landspítala og við höfum gert hingað til öðruvísi en að hafa öflugt fagfólk. Við hefðum aldrei getað rekið óbreytta starfsemi á Landspítalanum án þeirra hjúkrunarfræðinga sem höfðu sagt upp. Þess vegna var óhjákvæmilegt að leysa þessa deilu og allir þurftu að leggjast á eitt til að það gengi upp.

Það kom inn í þessa vinnu alla saman að ríkisstjórnin hafði á síðasta ári, og raunar alveg frá því að hún var stofnuð, sett sér það markmið að jafna launamun kynjanna í landinu. Það voru mikil vonbrigði að sjá á síðasta ári að þróunin hafði verið í neikvæða átt, þ.e. þetta lagaðist fyrst eftir hrun, síðan hallaði þetta á verri veg á síðasta ári og varð til þess að það var sett fram viljayfirlýsing á kvennafrídaginn á síðasta ári og ákveðið að fara í öflugt átak til að sporna gegn þessum kynbundna launamun. Í tengslum við þessa deilu var litið á það að einmitt heilbrigðisstéttirnar, þessar velferðarstéttir okkar, þar sem meiri hluti er konur, hafa setið eftir varðandi launaskrið og launahækkanir. Þess vegna var eðlilegt að þarna yrði gripið fyrst inn í. Þessi samningur sem gerður var við hjúkrunarfræðinga er fyrsta skrefið og auðvitað verður að fylgja því eftir gagnvart öðrum stéttum sem eru í svipaðri stöðu þó að þessi samningur sé ekki beint fordæmisgefandi gagnvart öðrum stéttum. Það verður að meta það út frá hverri og einni einstakri stétt og stöðu hjá viðkomandi innan spítalans.