141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

kostnaður við samninga hjúkrunarfræðinga.

[10:59]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Svör hæstv. velferðarráðherra valda miklum vonbrigðum. Ég var ekki að spyrja um fortíðina í þessum efnum og hvernig samningarnir hefðu gengið, ég var að spyrja um framhaldið.

Nú liggur fyrir að viðbótarkostnaður er 250 millj. kr. bara vegna þessa samnings. Það liggur fyrir að gera þarf fleiri stofnanasamninga. Þeir munu kosta peninga. Hvert verða þessir fjármunir sóttir?

Vill hæstv. ráðherra lýsa því yfir með hvaða hætti hann hyggist beita sér? Mun hann leggja fram tillögu um að það komi viðbótarframlag úr ríkissjóði til að mæta þessu? Ella er auðvitað ljóst mál að þetta mun hafa áhrif á rekstur spítalans í núverandi mynd. Spítalinn þarf þá að grípa til aðhaldsaðgerða á öðrum sviðum sem vandséð er hvernig spítalinn getur í rauninni farið í.

Nú vil ég spyrja hæstv. ráðherra og biðja hann um að svara því beint: Mun hann beita sér fyrir því að Landspítalinn fái viðbótarfjármagn? Munu koma frekari fjármunir frá ríkisvaldinu til að hægt verði í raun og veru að takast á við þá nýju samninga sem gerðir hafa verið og fyrirsjáanlegt er að verði gerðir?