141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

breytingar á stjórnarskrá.

[11:02]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra og nokkrir úr stjórnarliði hennar hafa lýst því yfir að hér eigi að keyra stjórnarskrármálið áfram, að það frumvarp sem liggur fyrir skuli fara í gegnum þingið fyrir þingkosningar.

Því spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Óttast ráðherrann ekki, verði frumvarpið keyrt í gegn á mjög litlum minni hluta þingmanna, að málið verði fellt eftir næstu kosningar og að fyrsta verk nýs þings verði að fella frumvarpið því að eins og allir vita sem fylgjast með stjórnskipunarmálum þá þarf nýtt þing að samþykkja frumvarpið óbreytt?