141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

breytingar á stjórnarskrá.

[11:04]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Hér gerast stórtíðindi í þingsal. Hæstv. forsætisráðherra boðar að tekið verði í útrétta hönd þingmanna Framsóknarflokksins. Við höfum ætíð talað fyrir sátt í málinu, að taka ákveðnar greinar, bæta þeim við stjórnarskrá eða laga aðrar sem við höfum lagt áherslu á. Þetta er mikið fagnaðarefni. Hér er um stefnubreytingu að ræða hjá hæstv. forsætisráðherra því að nú virðist ekki lengur vera lögð áhersla á að keyra frumvarpið í heild sinni í gegnum þingið, enda hefur margoft verið bent á að íslensk stjórnsýsla og stjórnskipan landsins þolir ekki þessar miklu breytingar.

Ég árétta því spurningu mína til hæstv. forsætisráðherra: Er það ekki réttur skilningur hjá mér að verið sé að taka í útrétta sáttahönd Framsóknarflokksins og lykta þessu í þinginu (Forseti hringir.) með því að gera stjórnarskrárbreytingar á þeim köflum sem þarf að breyta og það verði þá gert í sátt?