141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

samskipti lögregluyfirvalda við FBI og aðkoma innanríkisráðherra.

[11:07]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Koma starfsmanna bandarísku alríkislögreglunnar FBI til Íslands í ágúst 2011 grundvallaðist á fyrirliggjandi réttarbeiðni og var liður í rannsókn þeirra og rannsókn íslensku lögreglunnar vegna mögulegrar tölvuárásar á tölvukerfi Stjórnarráðsins. Fram til þess að afskipti innanríkisráðherra hófust gekk það mál sem er til umfjöllunar sinn venjulega og lögbundna gang í stjórnkerfinu. Rökstuddur grunur lék á um alvarleg brot sem beindust gegn íslenska ríkinu og er rannsókn málsins ekki lokið. Ríkissaksóknari taldi að hætta eða vá væri fyrir dyrum eins og hann orðaði það fyrir allsherjar- og menntamálanefnd og því rökrétt að hefja rannsókn málsins. Eftir upplýsingaöflun var talið rétt að FBI setti fram formlega réttarbeiðni og hún fór síðan í júlí 2011 í hefðbundið ferli.

Þegar vitneskja fæst um að íslenskur maður hafi óskað eftir að koma á framfæri upplýsingum tengdum málum bandaríska yfirvalda þá óskar FBI í kjölfarið eftir aðstoð íslensku lögreglunnar í málinu og að koma til Íslands í þeim tilgangi að funda með þeim sem bjó yfir upplýsingum. Málið var þá í eðlilegu ferli og því tryggt að íslensk lögregluyfirvöld stýrðu aðgerðum hér á landi eins og alltaf er venja þegar um slík samskipti er að ræða. Íslensk lögregla og sjálfstætt ákæruvald hafði þannig fullt vald á málinu. Þar með var ekki einungis gætt fullveldis okkar og rannsóknarhagsmuna heldur einnig hagsmuna íslenska einstaklingsins sem um ræðir allt þar til innanríkisráðherra stoppaði alla aðkomu íslensku lögreglunnar að málinu í ágúst 2011 með algerlega óviðunandi útskýringum.

Samkvæmt viðtali við hæstv. utanríkisráðherra var skýrt að með því að taka íslensk lögregluyfirvöld úr málinu og vísa FBI burt frá landinu hefði megintilgangurinn verið að vernda réttarhagsmuni einstaklingsins. Allir vita þó að þeim hagsmunum hefði verið betur borgið með því að hafa íslenska lögreglu viðstadda.

Þessar útskýringar voru hins vegar ekki fyrirferðarmiklar í máli innanríkisráðherra á fundi allsherjar- og menntamálanefndar heldur setti hann fram ýmsar vangaveltur, m.a. um þann sem tengdist rannsókninni, Íraksstríðið og starfsaðferðir FBI til að réttlæta aðkomu sína að málinu. Einhvern tíma hefði nú heyrst að þetta væri til pólitísks heimabrúks.

Við þetta er orðið ljóst að um pólitískt mat ráðherra var að ræða og það bullandi, að mínu mati. Eða skiptir máli í augum ráðherra hver það er sem er til rannsóknar hverju sinni? Ef svo er vil ég benda hæstv. ráðherra góðfúslega á að það er þess vegna sem við erum með sjálfstætt ákæruvald sem er okkur svo mikilvægt, svo að stjórnmálamenn ákveði ekki hverjir eru til rannsóknar og hverjir ekki og hvort rannsókn skuli hætt eða haldið áfram. Þetta mikilvæga sjálfstæði hefur Hæstiréttur Íslands margítrekað í dómum sínum. Ætla menn að halda því fram hér að við rannsókn máls, þegar grunur leikur á um alvarlegt brot, eigi hið pólitíska mat að ráða umfram hið faglega og sjálfstæða rannsóknarvald, að hæstv. innanríkisráðherra þekki málið betur en hið sjálfstæða ákæruvald? Málið er nefnilega ekki í einhverjum flækjupytti, eins og ráðherrar og reyndar fleiri pólitískir meðreiðarsveinar hafa viljað ýta því í, heldur er það mjög einfalt. Ríkissaksóknari og lögregla eru að rannsaka mál, eru í samvinnu við erlenda lögreglu um málið eins og oft áður og setja málið í þekkt venjubundið ferli allt þar til innanríkisráðherra stoppar það vegna óróleika og pólitískra skoðana. Þetta blasir við eftir fundinn í allsherjar- og menntamálanefnd. Viðbrögð ráðherra geta með engu móti fallið undir það að vera yfirveguð. Þau eru eiginlega stórundarleg að mín mati því að vel að merkja þá höfum við Íslendingar átt mjög farsælt samstarf við lögreglu hinna ýmsu landa við rannsókn mála, þar með talið FBI og bandaríska dómsmálaráðuneytið. Bandaríkin eru nefnilega vinaþjóð okkar þótt innanríkisráðherra og fleiri eigi erfitt með að viðurkenna það.

Það má líka spyrja hvort með þessu hafi ráðherra truflað rannsókn annars máls er snertir þá tölvu sem fannst hér á þingi og lítt miðar í rannsókn á, hugsanlega vegna skorts á sérþekkingu.

Alvarlegast að mínu mati er þó hvernig innanríkisráðherra hefur vegið að sjálfstæði ákæruvaldsins með aðkomu sinni. Þess vegna er ástæða til að spyrja innanríkisráðherra í fyrsta lagi að því hvort hann eða einhver á hans vegum hafi áður gripið inn í eða haft afskipti af rannsókn annarra mála með einhverjum hætti, í öðru lagi hvort hann geti útskýrt hvort það skipti máli hver sé til rannsóknar hverju sinni og þá hvort hann geti upplýst hér á þingi hvenær það sé þess virði að fórna sjálfstæði ákæruvaldsins og í þriðja lagi hvort hann telji samskiptum ákæruvalds við erlend lögreglulið í einhverju vera ábótavant.