141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

samskipti lögregluyfirvalda við FBI og aðkoma innanríkisráðherra.

[11:30]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir umræðuna. Það er dæmalaust að hlusta á þau orð sem hér falla, sérstaklega úr munni hæstv. innanríkisráðherra þar sem hann er ekki sammála ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra um hvort þessi mál séu skyld.

Við skulum fara aftur til 28. desember 2009 þegar óþekkt tölva var tengd við tölvunet Alþingis, við skulum fara svo langt aftur því að öllum líkindum tengjast þessi mál. Það var svo ekki fyrr en í ársbyrjun 2010 að forseti þingsins, Ásta Ragnheiður, tilkynnti þingmönnum það ókunn tölva hefði fundist í húsakynnum Alþingis. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁRJ): Muna eftir að nefna þingmenn fullu nafni.)

Síðan var haft samband við íslenska ríkið, íslenska innanríkisráðuneytið, og sagt að tölvuárás vofði yfir á stjórnkerfi Íslands. Að sjálfsögðu verður að fara eftir þeim reglum sem eru í gildi þegar þannig viðvaranir koma. Ég tel að framhaldið á málinu hafi byggst á persónulegu og tilfinningalegu mati hjá hæstv. innanríkisráðherra þar sem hann er að reyna að slíta þessi tvö mál í sundur, því að málin eru mjög skyld.

Komið hefur fram í orðum ríkissaksóknara að þeim sem gefa vildi FBI upplýsingar var kynnt réttarstaða sín og honum greint frá að önnur giltu lög á Íslandi en í Bandaríkjunum. Það var gert til þess að hann mundi ekki breytast út vitni í sakborning undir þeim samtölum sem áttu sér stað. Var einstaklega vel staðið að því öllu saman, enda var hér náttúrlega um íslenska hagsmuni að ræða og það var Íslendingur sem vildi gefa þessar upplýsingar. Við skulum ekkert gleyma því að þessi aðili var starfsmaður Wikileaks um tíma og það er … (BirgJ: Hann er … ) (Gripið fram í: Já …) (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Er ekki hægt að fá hljóð í salinn? (Gripið fram í.) (Forseti hringir.) Og það er alveg augljóst mál að það eru hagsmunir Wikileaks að (Forseti hringir.) þær upplýsingar sem hann hafði fram að færa komist ekki fram. Þess vegna er málið nátengt (Forseti hringir.) bæði við tilfinningar og pólitík.