141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[11:42]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Eitt af mikilvægustu hlutverkum utanríkisþjónustu lítillar þjóðar er að opna sem flestar dyr til þess að skapa okkur nýja vini og ný tækifæri, en um leið slípum við gagnvegi til þeirra gömlu og þannig treystum við hagsmuni okkar og þróum viðskiptagáttir til umheimsins. Snar þáttur utanríkisstefnunnar er að skapa pólitíska innviði sem stuðla að ábatasamri verslun við aðrar þjóðir. Utanríkisstefnan þarf í senn að tryggja hagsmuni til fyrirsjáanlegrar framtíðar og að kasta sáðkornum í hagana handan heimatúnanna sem gætu fært okkur drjúga uppskeru til lengri framtíðar. Þetta höfum við kappkostað með ýmsu móti.

Við höfum þétt böndin við næstu nágranna í vestnorðri, Grænland og Færeyjar, í vestri með því að efla samstarf við Bandaríkin og Kanada á hefðbundnum sviðum en líka nýjum. Til austurs höfum við svo styrkt samstarfið við systurþjóðir okkar annars staðar á Norðurlöndum. Við höfum náð upp mun betra samstarfi en nokkru sinni í sögunni við Rússland og stóreflt samstarfið við önnur Evrópulönd. Um leið höfum við líka opnað nýjar dyr fyrir rísandi viðskiptaveldum í Asíu. Þar getur orðið grösug nýrækt fyrir íslenskt atvinnulíf ef rétt er sáð og vel í borið.

Í reynd má segja að við höfum einbeitt okkur að þrenns konar gáttum inn í framtíðina:

Í fyrsta lagi höfum við víkkað þá sem snýr að helstu viðskiptaþjóðum okkar í Evrópu. Það höfum við gert með samningum sem opna íslensku þjóðinni leið inn í Evrópusambandið, ef hún svo kýs, og til að taka upp nýjan og stöðugan gjaldmiðil, evruna.

Í öðru lagi höfum við opnað nýja gátt með því að setja nýtt mál á dagskrá, norðurslóðir. Það tel ég vera lykil Íslands að þeim miklu tækifærum sem bíða á norðurslóðum, þar með talið í olíu og gasvinnslu, í lengri framtíð í fiskveiðum á miðum sem skapast við bráðnun ísþekjunnar og norðursiglingum. Fyrsta tækifærið í tíma er þó þjónustustarfsemi við orkuþríhyrninginn sem ég hef skilgreint sem svæðið frá Norðaustur-Grænlandi til Jan Mayen og þaðan suður til Íslands. Markmiðið er að byggja upp á Norðurlandi þjónustu við rannsóknir, tilraunaboranir og vinnslu innan orkuþríhyrningsins. Það tel ég að muni gjörbreyta afkomu Norðlendinga og raunar hafa efnahagsleg áhrif um allt Ísland.

Í þriðja lagi höfum við svo þróað Asíugáttina með áherslu á viðskipti og fríverslun en ekki síður á norðursiglingar. Í þeim tel ég felast einstök pólitísk og efnahagsleg framtíðarfæri. Lönd eins og Singapúr en ekki síst Kína hafa sömu hugmyndir og við um að besta braut norðursiglinga síðar á öldinni liggi beint yfir pólinn. Sú leið tel ég að gæti aukið pólitískt vægi Íslands gríðarlega og eflt samstarf okkar innan Evrópu, við Ameríku og Asíu fyrir utan vitaskuld að hafa veruleg efnahagsleg áhrif á Íslandi. Í þessum þremur gáttum felast miklir framtíðarhagsmunir.

Frú forseti. Það eru líka hættur samfara tækifærunum. Við þurfum styrk til að tryggja að öll umsvif mannsins á norðurslóðum, ekki síst olíu- og gasvinnsla, verði í takt við ýtrustu reglur sem við viljum fylgja um umhverfisvernd og náttúru. Lykill að því er að byggja okkur upp sem ábyrgt norðurskautsríki og að því höfum við unnið af krafti.

Tveir mikilvægir alþjóðasamningar um leit og björgun og varnir gegn olíuslysum hafa verið gerðir. Báðum var lokið í Reykjavík. Undirbúningur að alþjóðlegri björgunarmiðstöð á Íslandi er í gangi. Samhliða stofnun fastaskrifstofu norðurskautsráðsins í Tromsö hefur starfsemi tveggja starfsþátta ráðsins um lífríki og verndun umhverfis líka verið tryggð til frambúðar á Akureyri. Undirbúningur að samvinnu Íslands, Noregs og Grænlands um þjónustu við orkuþríhyrninginn er kominn vel áleiðis. Grænlensk-íslenska viðskiptaráðið hefur verið stofnað og sömuleiðis eru tvær vel heppnaðar kaupstefnur að baki. Þá var líka Færeysk-íslenska viðskiptaráðið stofnað sl. haust. Merkilegt samkomulag var líka gert við Rússland um samstarf á sviði siglinga og vísindarannsókna á norðurslóðum. Við gerðum sömuleiðis rammasamning við Kína um rannsóknir sem varða norðurslóðir, norðurljós og norðursiglingar og hann er kominn til framkvæmda. Formlegt samstarf íslenskra og franskra háskóla um norðurvegu er líka hafið á grundvelli samnings við Frakka. Norðrið hefur sömuleiðis orðið að nýjum öxli í samstarfi okkar og gamalla og nýrra bandamanna, Bandaríkjanna, ekki síst Alaska.

Sérstakur samningur var svo gerður við Noreg með 200 millj. kr. framlagi Norðmanna auk mótframlags frá okkur og í krafti hans var stofnuð prófessorsstaða við Háskólann á Akureyri, kennd við könnuðinn fræga Friðþjóf Nansen.

Við höfum líka beitt okkur fyrir margföldun á framlögum til málefna norðurslóða og í síðustu viku undirritaði ég á Akureyri samning um fjármögnun Norðurslóðanets Íslands. Við sama tækifæri lýsti ég því að síðsumars yrði svo opnuð aðalræðismannsskrifstofa í Nuuk í samræmi við vilja Alþingis.

Það má segja að þetta kröftuga frumkvæði Íslands á skömmum tíma hafi hlotið sérstaka viðurkenningu með því að Íslendingur, Magnús Jóhannesson, okkur að góður kunnur sem fyrrum ráðuneytisstjóri í umhverfisráðuneytinu, var ráðinn fyrsti framkvæmdastjóri hinnar nýju stofnunar norðurskautsráðsins í Tromsö.

Hæstv. forseti. Íslenskt hugvit er að spretta úr spori á öllum sviðum. Þróun fullvinnslu í hefðbundnum greinum vex, skapandi greinar fljúga. Í framtíðinni þurfum við fleiri nýræktir, við þurfum fleiri útflutningsmarkaði. Hagspár sýna að til ársins 2030 verði 80% af aukningu heimsviðskipta í Asíu. Millistéttin er drifkrafturinn í heimsverslun nútímans. Fram til 2030 mun hlutur indversku og kínversku millistéttanna af neyslu þessara samfélagshópa á heimsvísu næstum sexfaldast. Það er af þeim sökum sem við höfum lagt sérstaka rækt við Asíugáttina.

Á fundi kínverska og íslenska forsætisráðherrans í Reykjavík í apríl sl. var ákveðið að ljúka við gerð fríverslunarsamnings milli ríkjanna, helst innan árs. Sá samningur er nú á lokastigi þó að vissulega sé enn ólokið mikilvægum þætti. En Ísland er líka langt komið með fríverslunarsamning við Indland gegnum EFTA og áleiðis við sólrisuríki í Suðaustur-Asíu eins og Malasíu og Víetnam. Með Asíugáttinni er því verið að skapa stórkostlega möguleika fyrir íslenskt atvinnulíf til framtíðar.

Virðulegi forseti. Þær þrjár gáttir Íslands inn í framtíðina sem ég hef hér lýst, til Evrópu, inn á norðurslóðir og Asíugáttin, eru þess eðlis að þó að ein lokist eru hinar opnar. Þær útiloka ekki hver aðra heldur styrkja. Allar eiga þær það sameiginlegt að styðja við velsæld Íslands. Þessi utanríkisstefna byggir á því að veðja ekki öllu á einn framtíðarkost heldur þróa marga.

Evrópuleiðin er sú sem ég tel að í nánustu framtíð geti bætt lífskjör Íslendinga mest. Hún snýst um það hvort Ísland kýs að verða hluti af stærri og sterkari efnahagsheild þar sem efnahagslegur stöðugleiki styrkir bæði fjölskyldur og fyrirtæki með lægri vöxtum, lægri verðbólgu, lægra verðlagi og losar okkur líka við verðtrygginguna

Evrópuleiðin snýst líka um öryggið sem felst í því að vera hluti af stórri fjölskyldu sem bregst til varnar ef viðsjár verða. Hún snýst um að auka erlendar fjárfestingar og skapa þannig aukinn útflutning, aukinn hagvöxt og þar með fleiri og fjölbreyttari störf fyrir framtíðina. Sú er einmitt reynsla annarra smáríkja af aðild.

Síðast en ekki síst snýst Evrópuleiðin um að Íslendingar fái sjálfir að velja hvort þeir taka upp sterka og öfluga mynt í stað krónunnar. Við munum það öll að í gjaldmiðlaskýrslu Seðlabankans er komist að þeirri niðurstöðu að krónan sé bæði uppspretta og magnari sveiflna. Óstöðugleiki krónunnar veldur því að fyrirtæki geta ekki gert áætlanir nema til skamms tíma, óstöðugleikinn étur líka upp kjarasamninga. Allir vita að gjaldeyrishöft munu alltaf fylgja krónunni í einhverri mynd. Höftin fæla fjárfesta frá landinu. Þau flæma líka íslensk störf, íslensk fyrirtæki úr landi eins og forustumenn í atvinnulífinu lýsa þessa dagana hver um annan þveran. Það er af þessum ástæðum sem ríflega helmingur þjóðarinnar vill taka upp nýjan gjaldmiðil.

Evrópuleiðin opnar leið til að taka upp evru. Ég tel hana henta Íslandi best enda eru viðskipti okkar við evrulöndin langmest. Margir aðrir, sem fælast ESB, vilja samt taka upp nýja mynt, bara alls ekki evru. Í þessum efnum er skýrsla Seðlabankans mjög skýr. Í henni segir til dæmis að einhliða upptaka evru sé ekki möguleg, einhliða upptaka annarra mynta fæli í sé fullkomið valdaafsal Íslendinga í gjaldeyrismálum. Tvíhliða upptaka væri beinlínis skaðleg. Niðurstaða skýrslunnar var skýr. Valkostir Íslendinga eru tveir og aðeins tveir: Að halda áfram með krónuna og lifa með veikleikum hennar eða taka upp evru í bættum búningi. Það eru ekki aðrir kostir. Báðir eru raunhæfir.

Ísland ferst ekki þó að krónan yrði hér um alla framtíð. En íslenskt viðskiptalíf mundi þá aldrei standa jafnfætis viðskiptalífi samkeppnisþjóðanna, smám saman drægi úr samkeppnisgetu landsins og sífellt erfiðara yrði að skapa íslensku þjóðinni sömu velsæld og öðrum þjóðum. Það er nú þegar erfitt eins og ný skýrsla ASÍ um lífskjör á Íslandi í samanburði við aðrar Norðurlandaþjóðir sýndi svo glögglega í vikunni. Hættan er að þá greiddi blómi kynslóða framtíðarinnar atkvæði með fótunum og flytti frá Íslandi til Evrópusambandsins.

Nú er það svo að jafnvel fljúgandi skriður á lokaáfanga samninganna gerir okkur ekki kleift að taka upp evru á allra næstu árum. Gleymum þó ekki að aðild hjálpar okkur strax að koma krónunni í skjól. Íslandi stæði þá strax til boða sérstakt gjaldmiðlasamstarf þar sem evrópski seðlabankinn yrði skuldbundinn til þess að halda krónunni innan ákveðinna marka sem við semdum um. Af sjálfu leiðir að slíkt samstarf drægi strax úr óstöðugleika og verðbólgu. Með aðild væri því hægt að koma krónunni í var strax á næsta kjörtímabili. Fram að því segi ég alveg skýrt að það þarf að styrkja krónuna sem best. Það hjálpar til þegar kemur að upptöku evrunnar og svo hitt, að okkur ber að virða það að krónan er annar kostanna tveggja. Það erum ekki við heldur þjóðin sem velur. Ábyrg afstaða er því að virða þá staðreynd og halda báðum kostum opnum, krónu og evru, og einmitt í því ljósi er það andstætt hagsmunum Íslands að vilja stöðva aðildarferlið. Það væri ábyrgðarlaust glapræði því að það lokar um alla framtíð á annan kostanna tveggja. Þess vegna segi ég, herra forseti, að það sé í þágu hagsmuna Íslands að halda samningunum áfram og tryggja að þjóðin eigi beggja kosta völ og fái að lokum sjálf að ráða.

Virðulegi forseti. Í samningunum er nú einungis lokaáfanginn eftir, að opna og semja um landbúnað og sjó, og það sem honum tilheyrir. Ég er þeirrar skoðunar að þegar séu til leiðir til að bæta bændum upp afnám tollverndar og að sérstaða okkar leiði til þess að samningar um landbúnað verði mun auðveldari en menn hugðu. Það er hins vegar í sjó sem mestir hagsmunir eru undir. Menn segja að sjór rími ekki við ESB, við töpum fiskimiðunum, við fáum ekki rönd við reist gegn innrás erlends fjármagns, við missum fyrirtækin í erlent eignarhald og störfin úr landi. Allt eru þetta bábiljur. Staðreyndin er sú að með hörðum samningum getum við haldið því sem við höfum en opnað um leið ný og mikil tækifæri fyrir sjávarútveg á Íslandi.

Í fyrsta lagi höldum við aflahlutdeild við inngöngu. Reglan um hlutfallslegan stöðugleika festir óbreytta aflahlutdeild aðildarþjóða í krafti sögulegrar veiðireynslu. Það gildir jafnt um staðbundna stofna sem þá flökkustofna sem samið er um. Í dag erum við með fasta samninga um alla flökkustofna nema makríl. Það liggur hins vegar í eðli máls að þeirri deilu lýkur áður en kemur til aðildar.

Í öðru lagi þurfum við að tryggja okkur gegn nýrri vá sem er hugsanleg breyting á göngumynstri flökkustofna norður um höf vegna hlýnunar sjávar. Reglan um sögulega veiðireynslu tryggir hlutdeild okkar. Ef stofnarnir leita út úr lögsögunni höfum við slagkraft sambandsins til þess að standa vörð um hagsmuni okkar. Þetta gildir líka um staðbundna stofna eins og þorsk ef þeir flyttu sig norðar vegna hlýnunar á öldinni. Aðild setur því íslenska girðingu utan um fiskstofnana okkar og er besta trygging okkar fyrir óbreyttri hlutdeild þó að þeir taki á rás út úr lögsögunni vegna breytinga á hitastigi í sjó.

Í þriðja lagi, hví skyldum við ekki geta tryggt varanlega sérstakt fiskveiðistjórnarsvæði fyrir allt Ísland í krafti sömu raka og Norðmönnum dugðu til þess að tryggja sér slíkt stjórnsvæði norðan 62. gráðu tímabundið? Þeir náðu fram skilningi sambandsins á því að norðan hennar væri sjávarútvegur svo mikilvægur að þeir yrðu að fá að stjórna honum sjálfir og þeir fengu það. Ísland allt er norðan 62. gráðu. Fiskveiðar eru hér enn mikilvægari en þær voru í Norður-Noregi. Við höfum enga sameiginlega lögsögu með ESB eins og Noregur. Okkar rök eru því sterkari en þeirra voru. Ef Norðmenn gátu fengið slíka sérlausn tímabundið eiga Íslendingar að geta fengið hana varanlega.

Í fjórða lagi þarf Ísland að tryggja að aðild leiði ekki til þess að störf flytjist úr landi. Í dönskum sjávarútvegi er það tryggt með ákveðnum búsetukvöðum. Ef kerfið dugar í Danmörku dugar það líka á Íslandi.

Í fimmta lagi mun aðild skapa skilyrði fyrir því að einn best rekni sjávarútvegur í heimi geti haslað sér enn sterkari völl erlendis og þannig skapað aukin verðmæti og tækifæri fyrir Ísland utan landsteinanna. Það er mögulegt í krafti samninga ESB um fiskveiðar við þriðju ríki en ekki síður í sameiginlegum fjárfestingum í löndum þar sem eru vannýttir stofnar og fiskvinnsla er enn vanþróuð. Í þessu liggja ekki síst tækifæri fyrir íslenskan sjávarútveg til að færa út kvíar og skapa þannig verðmæti sem styrkja Ísland.

Í sjötta lagi leiðir aðild til þess að risastórt markaðssvæði opnast fyrir fjölmörg lítil og sérhæfð fyrirtæki í fullvinnslu. Þau fengju tækifæri til að byggja sig upp á 500 milljón manna heimamarkaði án nokkurra tollaþröskulda og gætu hæglega vaxið í að verða alþjóðleg stórfyrirtæki. Tollar til dæmis á tilbúnum fiskréttum eru í dag illkleifur þröskuldur fyrir smáfyrirtæki sem framleiða hágæðavörur. Það vill svo til að það er vísir að slíkum fyrirtækjum í öllum helstu fiskiplássum Íslands. Þau bjóða öll upp á besta og ferskasta hráefni í heimi. Aðildin gæti því skapað nýjan kafla í sjávarútvegssókn Íslendinga. Fyrr en seinna gæti því innganga í ESB skapað ný stórveldi í atvinnulífi Íslendinga og fjölda nýrra vel launaðra starfa í sjávarplássum hringinn í kringum landið.

Hæstv. forseti. Ég hef í þessari framsögu lagt mesta áherslu á þær gáttir sem ég tel verða Íslandi happadrýgstar á sviði viðskipta á komandi tímum. Ég vil líka undirstrika það rækilega að allt okkar starf og öll okkar samskipti við aðrar þjóðir markast af því sem við teljum besta og fallegasta framlag okkar til umheimsins sem er virðing og barátta fyrir mannréttindum. Það er hinn alltumlykjandi blær á íslenskri utanríkisstefnu.

Við höfum skipað okkur í fremstu röð þeirra þjóða sem berjast gegn því að nokkur sæti ofsóknum eða sé mismunað á grundvelli kynhneigðar eða kynvitundar. Stefna Íslands er að verja þau réttindi hvarvetna.

Stuðningur okkar við Palestínu byggir ekki síst á virðingu fyrir mannréttindum og eindregnum stuðningi við það viðhorf að engin þjóð megi kúga aðra. Mér fannst sjálfum að Alþingi risi aldrei hærra en þegar það samþykkti án andstöðu nokkurs einasta þingmanns að viðurkenna fullveldi Palestínu árið 2011. Í samræmi við það tók Ísland eitt ríkja Vestur-Evrópu sér stöðu með þeim þjóðum sem fluttu tillögu um áheyrnaraðild Palestínu að Sameinuðu þjóðunum á síðasta allsherjarþingi. Sú tillaga var mikilvægt framlag til að auka jafnvægi milli Palestínu og Ísraels eins og var undirstrikað af þeim yfirgnæfandi stuðningi sem tillagan hlaut að lokum.

Valdefling kvenna, kynjajafnrétti, barátta gegn mansali, gegn ofbeldi á konum og stúlkum eru lykilstef okkar á alþjóðavettvangi. Alls staðar þar sem Ísland á rödd á palli er talað fyrir mannréttindum kvenna. Ísland er meðal þeirra ríkja sem í dag beita sér hvað harðast fyrir lykilályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna nr. 1325 um konur, frið og öryggi. Greining á framlagi okkar í þróunarmálum leiddi í ljós að hlutfall þeirra verkefna sem tengjast liðsinni við stúlkur, konur og mæður hefur farið hækkandi. Þau eru nú átta af hverjum tíu.

Þróunarsamvinna er líka barátta fyrir mannréttindum. Ég ætla ekki að fjölyrða um hana í dag, stefna okkar á því sviði verður ítarlega rædd hér innan skamms þegar ég legg fyrir þingið tillögu um að endurskoðaða áætlun um þróunarsamvinnu Íslands. Hitt vil ég segja skorinort að mér fannst Alþingi standa í stykkinu þegar það samþykkti að ná því takmarki að 0,7% af vergum þjóðartekjum færi til þróunarmála árið 2019. Þó reis það enn hærra þegar þingið framhlóð tillögu mína með því að slá hressilega í varðandi 2013 og 2014. Það var ekki sjálfgefið í þeirri stöðu sem hér hefur ríkt. Með því tel ég að Alþingi hafi lýst sterkri félagslegri afstöðu til annarra þjóða. Hún er þessi: Ríkri þjóð, eins og við erum, ber alltaf siðferðileg skylda til þess að rétta hjálpandi hönd þeim sem þurfa liðsinni til að geta hjálpað sér sjálfir. Af slíku liðsinni getum við Íslendingar verið stoltir.