141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[12:12]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta voru athyglisverð skoðanaskipti og fá mig kannski til að halda að lengra sé í niðurstöðu hjá þjóðaröryggisnefndinni en maður hélt.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra aðeins út í stjórnarskrána sem hann gerði að umtalsefni í mjög litríkum inngangi sem hann hefur greinilega skrifað sjálfur.

Þar segir hann, með leyfi forseta: „Icesave-málið var öðrum þræði merkileg tilraun um stjórnarskrá. […] Þetta var galdur stjórnarskrárinnar.“ Þetta er reyndar merkilegt frá manni sem greiddi í tví- eða þrígang atkvæði gegn því að leggja Icesave í dóm þjóðarinnar. En gott og vel.

Þessi sami maður, hæstv. ráðherra, vill nú breyta núgildandi stjórnarskrá þannig að slík þjóðaratkvæðagreiðsla yrði bönnuð. Og þessi sami ráðherra talar líka um mikilvægi samráðs við utanríkismálanefnd og Alþingi, og um mikilvægi þess að utanríkisráðherra geti með litlum fyrirvara leitað álits í flóknu máli, eins og í Líbíu, nefnir hæstv. ráðherra sem dæmi. Sami ráðherra vill breyta stjórnarskránni þannig að ekki verður hægt að taka slíkar ákvarðanir með litlum fyrirvara, eins og við bendum á í minnihlutaáliti (Forseti hringir.) utanríkismálanefndar með stjórnarskrármálinu. (Forseti hringir.) Virðulegi forseti. Hvernig fer þetta saman?