141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[12:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Til að taka af allan vafa styð ég áframhaldandi veru Íslands í Atlantshafsbandalaginu. Sú afstaða hefur löngum legið fyrir.

Sú breytingartillaga sem hv. þingmaður vísar til gæti hugsanlega í sumum tilvikum leitt til þess að Ísland yrði seint til að taka afstöðu, það er hugsanlegt. Ég er samt ekki alveg viss um það, en ég hafði ákveðnar efasemdir um þetta tiltekna atriði.

Ég tel hins vegar ekki að sú ákvörðun sem tekin var um Líbíu hefði neitt skaðast vegna þessa ákvæðis. Það eru öðruvísi aðgerðir sem hugsanlega gæti orðið miklu svifaseinna fyrir Íslendinga að taka afstöðu til. En Líbía hefði flotið fram að sama ósi af okkar hálfu þrátt fyrir þetta ákvæði. Ákvæðið sjálft breytir engu um það sem mér finnst eftirsóknarvert og gerði í því tiltekna dæmi að leita álits þingsins milliliðalaust, alls þingsins, ekki bara utanríkismálanefndar heldur alls þingsins yfir þennan ræðustól. (REÁ: … atkvæðagreiðslu samkvæmt ákvæðinu.)