141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[12:43]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg hárrétt að pólitískur ágreiningur innan ríkisstjórnarinnar, um hvernig staðið skyldi að Evrópusambandsaðildarferli og umsókn, var til staðar. Ég bara þekki það í mínu starfi sem ráðherra að þrýst var á það, það var krafa frá Evrópusambandinu, að við mundum strax byrja aðlögun, breyta íslenska landbúnaðarkerfinu samkvæmt því evrópska, eins og er í Evrópusambandinu. Það var sett sem opnunarskilyrði fyrir viðræðunum um landbúnaðarkaflann að Ísland legði fram áætlun um að þeir væru búnir að innleiða allt og breyta kerfi sínu á aðildardegi, eða eins og segir í kröfunum frá Evrópusambandinu, með leyfi forseta:

„Því er brýnt að biðja Ísland um að kynna áætlun og leiðbeinandi tímasetta áætlun sem lýsi hvernig mætt verði öllum kröfum Evrópusambandsins á aðildardegi …“

Það er alveg hárrétt, þessu hafnaði ég. Ég hafnaði þessu algjörlega og sagði að við færum nú ekki að innleiða lög og reglur og stofnanakerfi fyrr en þá og ef Ísland hefði samþykkt aðild. En ég er alveg sammála hv. þingmanni í því að það er alveg sama hvort einhverjar undanþágur fást frá þessum og hinum, við eigum ekkert erindi þarna inn.

Evrópusambandsaðildin snýst um fullveldisafsal, framsal, í stórum eða litlum mæli, hún snýst um framsal á fullveldi. Það var nú einmitt svo að stjórnarskrármálið, sem hér er til umræðu, snýst líka í stórum þáttum um það. Þar eru stórir kaflar sem lúta einmitt að fullveldisframsalinu á heimild til að framselja fullveldi þjóðarinnar. Ég spyr hv. þingmann: Getur verið að þetta hangi saman, stjórnarskrármálið og sú áhersla sem þar (Forseti hringir.) er lögð á fullveldisframsalið og aðildarumsóknin að Evrópusambandinu?