141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[13:48]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil víkja aðeins að orðum hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar um makríl og rétt Íslendinga til þess að veiða makríl og eiga ákveðna hlutdeild í þeim veiðum.

Það er í sjálfu sér blekking að halda því fram að deilan við Evrópusambandið um skiptingu á makríl hafi ekki komið með beinum hætti inn í umræðuna um aðildarviðræður að Evrópusambandinu. Menn eiga bara að viðurkenna það. Ég held að sumir hafi nú gert það heiðarlega á meðan aðrir eiga kannski erfiðara með það. Ég hef ekki heyrt annað en að hæstv. utanríkisráðherra hafi alveg gert sér grein fyrir hinum nánu tengslum þarna á milli og jafnframt sagt að Evrópusambandið mundi ekki koma með niðurstöðu, hvorki í rýniskýrslu sinni né opna á samninga við Ísland um sjávarútveg, fyrr en makríldeilan sé leyst.

Það hefur ekki verið gert með neinum sérstaklega hlýlegum orðum. Ég minni á orð Mariu Damanaki í ESB-þinginu 10. júní 2010 þar sem hún sagði, með leyfi forseta:

„Vilji Íslendingar ganga í ESB og hafa aðgang að auðlindum okkar verða þeir að hlíta reglum okkar.“

Hún lét einnig orð falla um að hún ætlaði að fara til Íslands og gera Íslendingum grein fyrir því.

Ég vil líka minna á að (Forseti hringir.) háttsettir embættismenn Evrópusambandsins, sjávarútvegsráðherra, stækkunarstjórinn og einhver annar ráðherra, skrifuðu bréf til (Forseti hringir.) mín sem ráðherra og hæstv. utanríkisráðherra þar sem Íslendingum var hótað óbeint í þessum efnum.

(Forseti (ÁRJ): Forseti hvetur hv. þingmenn til að virða ræðutímann.)