141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[13:52]
Horfa

Jón Bjarnason (U) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil samt ítreka að við höfum litið á rétt okkar til að veiða hlutdeild okkar í makríl ótengdan Evrópusambandsumsókninni þótt Evrópusambandið hafi gert það, það væri bara réttur strandríkis sem þar væri borinn fram.

Það sem ég hef hins vegar áhyggjur af og vil spyrja hv. þingmann um afstöðu hans til eru orð hæstv. utanríkisráðherra. Hæstv. utanríkisráðherra segir að það sé allt í lagi að semja við Evrópusambandið og að við munum alltaf fá að ráða yfir fiskstofnunum á grundvelli sögulegs réttar okkar á veiðum, veiðum úr þorskstofnum, veiðum úr öðrum stofnum sem við höfum veitt af í kringum Ísland. Þó svo að við höfum takmarkaða lögsögu yfir okkar eigin fiskveiðilögsögu munum við halda þeim rétti.

Það eru einmitt þau rök sem Evrópusambandið notar varðandi makrílinn og segir að Evrópusambandsríkin hafi áratuga- og jafnvel aldalanga veiðireynslu á makríl. Þótt makríllinn fari til Íslands í stórum stíl, í heilum torfum, í milljónum tonna og sé hér í engri kurteisisheimsókn eigi þeir hann á nákvæmlega sömu forsendum og hæstv. utanríkisráðherra nefndi.

Sú afstaða finnst mér afar hættuleg. Hún undirstrikar mikilvægi þess að við ráðum yfir fiskveiðilögsögu okkar og tökum á breytingum sem verða í lífkerfinu á okkar forsendum, þ.e. breytingum á göngu fiska. Það má vel vera að stundum sé það okkur ekki í hag, en það er númer eitt að við getum samið á eigin forsendum og ráðið þarna ferð. (Forseti hringir.) Þess vegna spyr ég hv. þingmann um samræmið varðandi það að eiga rétt á að veiða makríl hér, (Forseti hringir.) sem ég tel að við eigum fyllilega.