141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[14:05]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Ég ætla eins og ýmsir aðrir að fjalla hér um skýrslu hæstv. utanríkisráðherra um utanríkis- og alþjóðamál. Ég vil byrja á að segja að ég tel að skýrslur af þessum toga — að því marki sem tími og ráðrúm hefur gefist til þess að lesa í gegnum hana, og það má að því leyti taka undir með hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrr í þessari umræðu — sem eru miklar að vöxtum og efnisríkar, þyrftu helst að berast þingmönnum með lengri fyrirvara en á við í þessu tilfelli. Það er ábending til hæstv. forseta fyrst og fremst að gæta að því að skýrslur af þessum toga geti verið þingmönnum til yfirlestrar í góðan tíma áður en umræðan fer fram.

Ég vil þó segja að að svo miklu marki sem ég hef getað farið í gegnum skýrsluna þá finnst mér hún taka á öllum þeim meginþáttum í okkar utanríkisstefnu sem eðlilegt er. Hún fer yfir sviðið, bæði á sviði samstarfs um Norðurslóðir og Norðurlandanna, um Evrópumálin, um EES-samninginn, sem ítarleg greining er um, og mér finnst mikilvægt og mun koma betur að, um alþjóða- og öryggismál, þróunarsamvinnuna og viðskiptasamninga, upplýsinga- og menningarstarf og rekstur utanríkisþjónustunnar þannig að hér er komið víða við.

Ég vil líka nota þetta tækifæri, sem formaður utanríkismálanefndar fyrst og fremst, og þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir mjög gott samstarf við nefndina á undanförnum árum, á undanförnu kjörtímabili. Ég vil einnig færa starfsfólki utanríkisráðuneytisins, sem við höfum átt náið og gott samstarf við á hinum ýmsu málasviðum innan utanríkismálanna, þakkir fyrir þeirra framlag. Starfsfólk utanríkisráðuneytisins hefur alltaf verið reiðubúið að koma til fundar við utanríkismálanefnd og veita upplýsingar og greinargóð svör og er ástæða til að þakka fyrir það.

Ég hafði hugsað mér, kannski svolítið líkt og utanríkisráðherra, að fara ekki mikið í kaflann um þróunarsamvinnu á þessu stigi vegna þess að hér hefur þegar verið lögð fram og útbýtt þingsályktunartillögu um alþjóðlega þróunarsamvinnu þannig að vonandi gefst færi á því að ræða hana nánar þegar sú tillaga kemur fram. Ég ætla að einbeita mér að nokkrum öðrum völdum þáttum.

Í fyrsta lagi ætla ég aðeins að koma inn á öryggis- og varnarmálin. Það kom stuttlega til orðaskipta milli hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur og hæstv. ráðherra í andsvörum fyrr í þessari umræðu um ákveðna þætti þar. Það er rétt, sem fram hefur komið, að að störfum er, á grundvelli þingsályktunar, sérstök þjóðaröryggisnefnd sem ég á reyndar sæti í sem annar fulltrúi míns þingflokks, þar sem verið er að fjalla um mótun þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland og ég tel að það sé mikilvæg vinna. Hins vegar er ljóst að áherslumunur er um vissa þætti í öryggis- og varnarmálum þjóðarinnar hvað þetta varðar.

Ég ætla sérstaklega í þessu samhengi að nefna loftrýmisgæsluna við hæstv. utanríkisráðherra. Það er skoðanamunur á vettvangi þjóðaröryggisnefndarinnar hvað það atriði varðar sérstaklega. Ég hafði litið svo á og hef litið svo á að með því að í stjórnarsáttmála er kveðið á um niðurlagningu eða endurskoðun á starfsemi Varnarmálastofnunar og loftrýmisgæslunnar og Varnarmálastofnun hefur verið lögð niður þá mundi loftrýmisgæslan fylgja í kjölfarið sömuleiðis. Ég vil líka geta þess að í þeirri þingsályktun, á grunni hverrar þjóðaröryggisnefndin starfar, er sérstaklega vísað í áhættumatsskýrslu fyrir Ísland frá árinu 2009 þar sem í raun, má segja, er komist að þeirri niðurstöðu að loftrýmisgæslan þjóni ekki mikilvægu hlutverki.

Ég er þeirrar skoðunar og get látið það koma fram hér — ég átti þess kost að heimsækja Portúgali sem voru hér með loftrýmisgæslu síðast og ræða við þá sem þar héldu utan um mál — að loftrýmisgæslan sé ekkert annað en æfingabúðir fyrir þessa blessuðu flugmenn, hún er ekkert annað. Maður skilur ósköp vel að þeir vilji geta átt kost á því að koma og æfa sig í sínu flugi við þær aðstæður sem hér eru. En hún hefur ekkert með varnir Íslands að gera. Það get ég ekki séð. Ég tel hana ekki hafa neitt með varnir Íslands að gera. Að því er varðar öryggis- og varnarmál og þjóðaröryggisstefnu tel ég að menn eigi að beina sjónum að annars konar þáttum sem okkur stafar meiri ógn af. Þar er verið að horfa á umhverfisvá, umhverfisógnir; samfélagsógnir af ýmsum toga, netárásir, ágætt að nefna það í kjölfar umræðu sem hér var fyrr í dag; hryðjuverk, alþjóðlega glæpastarfsemi, mansal, eiturlyfjasölu og annað í þeim dúr. Ég tel sem sagt að fókusinn eigi að vera á þá þætti og við eigum að reyna að draga úr hinu sem litlu máli skiptir. Þetta viðhorf vildi ég nú bara að heyrðist í þessari umræðu þó ekki væri annað, virðulegur forseti.

Ég vil líka aðeins nefna og halda áfram umræðu um makrílmálið sem ég hóf hér rétt áðan í orðaskiptum við hv. þm. Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Í sínu síðasta svari, sem ég gat ekki brugðist við, sakar hann mig um að koma hér og tala gegn íslenskum hagsmunum. Ég mótmæli því að sjálfsögðu. Ég tel hins vegar að íslenskir hagsmunir felist í því í þessu efni að umgengni um náttúruauðlindir sé sjálfbær og ábyrg þannig að menn endurtaki ekki leikinn frá kolmunnanum um árið og gangi að auðlindinni dauðri. Það er ábyrg auðlindanýting á grundvelli þeirrar stefnu sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur meðal annars boðað.

Menn geta að sjálfsögðu deilt um það hvort hlutdeild Íslands í sameiginlegum stofni eins og makrílnum eigi að vera meiri eða minni, einhverjar tilteknar prósentur til eða frá, að sjálfsögðu geta menn deilt um það, en hagsmunir okkar eru engu að síður þeir að auðlindin sé nýtt á ábyrgan hátt, á sjálfbæran hátt. Það eru okkar hagsmunir og við berum skyldur að alþjóðalögum til að semja við önnur strandríki sem hlut eiga að máli um þá nýtingu. Það á ekki bara við um Evrópusambandið, það á við um Noreg, sem að mínu viti hefur verið harðdrægari í gagnrýni sinni á Ísland, ef eitthvað er, í því efni, og síðan er Rússland með lítinn hluta. Allar þessar þjóðir verða að koma að borðinu og ná samkomulagi. Það þýðir ekkert að menn séu ekki að gæta hagsmuna Íslands, að sjálfsögðu eru menn að gera það og að sjálfsögðu vilja menn að hlustað sé á sjónarmið okkar og rök sem eru studd vísindarannsóknum, að sjálfsögðu. En við berum samt ábyrgð, það er ekkert hægt að hlaupast undan henni eins og mér finnst menn aðeins hafa gert í þessari umræðu.

Ég ætla að koma aðeins inn á Evrópumálin. Að því er varðar samningaviðræðurnar um aðild Íslands að Evrópusambandinu þá er ég ánægður með þá niðurstöðu sem varð í ríkisstjórn um breytta málsmeðferð aðildarviðræðnanna í aðdraganda kosninga til Alþingis. Ég tel að það hafi verið fyrirséð, reyndar kannski strax í haust, að ekki yrði hægt að opna viðræður um þýðingarmikinn málaflokk eins og sjávarútvegsmálin, og ég er þeirrar skoðunar að sá kafli verði ekki opnaður fyrr en botn hefur fengist í viðræður um téðan makríl. Menn geta deilt um það hvort tengja eigi þessi mál saman eða ekki, hvort þau séu tengd eða ekki, en það verður ekki að mínu viti. Og það verður ekki fyrr en að loknum þingkosningum í Noregi, það er mitt mat líka. Ég tel að norsk stjórnvöld séu ekki í aðstöðu til að semja um þetta mál fyrr en að loknum þingkosningum þar.

Ég tel því að það sé fyrirséð að það tefjist allmikið, jafnvel þó að menn ákveddu að halda þessu ferli áfram með óbreyttum hætti að því er varðar ESB. Ég er þeirrar skoðunar að sjávarútvegsmálin mundu hvort eð er við þær aðstæður bíða fram til loka þessa árs eða jafnvel fram í byrjun næsta árs. Ég er því ánægður með þá niðurstöðu sem ríkisstjórnin komst að varðandi breytta meðferð aðildarviðræðna fram að kosningum, ég vil bara segja það.

Ég get síðan ítrekað þá skoðun mína að ég tel persónulega að besta leiðin til að ná fram endanlegri niðurstöðu í spurningunni um aðild Íslands að Evrópusambandinu sé að spyrja þjóðina á grundvelli niðurstaðna úr aðildarviðræðunum. Ég tel að að öðrum kosti verði ekki um endanlega niðurstöðu að ræða og hluti þjóðarinnar telji sig hlunnfarinn. Ég vil ekki standa að því. Ég tel að þjóðin eigi að ráða þessu máli til lykta en það verði að koma því til þjóðarinnar á þann hátt að það sé fullbúið og niðurstaðan verði lokaniðurstaða. Menn komi svo ekki hálfu ári seinna eða einu ári seinna og segi: Heyrðu, þetta var bara blöff, það var ekki borinn undir okkur samningur og við viljum fá að kjósa aftur. Það er staðan sem getur blasað við að öðrum kosti, þannig að þetta er mín persónulega skoðun. Ég geri mér alveg grein fyrir því að í flestum flokkum eru skiptar skoðanir hvað þetta varðar og við eigum til dæmis eftir að ræða þetta í mínum flokki á landsfundi, og ég reikna með að í fleiri flokkum eigi eftir að ræða þetta á landsfundum, þannig að þá á eftir að koma í ljós hvaða afstöðu menn taka að lokum.

Ég ætla líka að fara hér í EES-samninginn og nota lokamínútur mínar í það. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við efnum hér til umræðu um EES-samninginn líkt og gert er í þessari skýrslu, líkt og hæstv. utanríkisráðherra gerði í framsöguræðu sinni; og fínt að fá skoðanaskipti og sjónarmið eins og þau sem komu fram í máli hv. þm. Bjarna Benediktssonar um það mál. Ég hef ítrekað í umræðum, stundum notað tækifærið þegar ég er að gera grein fyrir nefndarálitum um litlar EES-tilskipanir, að ræða um EES-málin, oft fyrir tómum þingsal — og ekki hefur það nú vakið mikla athygli, hvorki þingheims né fjölmiðla í sjálfu sér en látum það liggja milli hluta. Ég tel að það sé mikilvægt að við ræðum hvað er að verða með EES-samninginn og hvert við viljum frá honum.

Vinstri hreyfingin – grænt framboð mótaði þá afstöðu þegar sá flokkur var stofnaður að hann vildi þróa samskipti við Evrópusambandið yfir í tvíhliða samskipti á sviði viðskipta og samvinnu, menningarmála og annað slíkt, sem sagt ekki fara inn í Evrópusambandið og frá EES-samningnum. Spurningin er núna: Er það raunhæfur kostur? Væri sá kostur í boði sem hefði kannski verið í boði fyrir tíu árum? Ég er ekki viss um það. Ég er ekki viss um að sá kostur væri í boði fyrir Ísland að fara frá EES-samningnum og ætla að breyta honum að breyttu breytanda yfir í einhvern tvíhliða samning. Ég hef miklar efasemdir um að það sé raunhæfur kostur.

Hvað viljum við með EES-samninginn? Hér höfum við að undanförnu verið að ræða stjórnarskrána og það hvernig EES-samningurinn hefur verið að teygja á henni. Ég tel að það hafi verið mikil mistök af þeim sem fóru hér með völd þegar EES-samningurinn var innleiddur að hafa ekki annað tveggja gert breytingar á stjórnarskránni til að hann með óyggjandi hætti rúmaðist innan hennar eða efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið til að hafa þá alla vega þjóðarviljann á bak við sig, ef ekki hefði verið hitt. Það voru mistök. Það var meira að segja fyrirséð í nefndaráliti sérfræðinganna, sem þó sögðu að ekki þyrfti að breyta stjórnarskránni, að líklega mundi samningurinn breytast yfir tíma þannig að eftir einhvern tíma mundi hann rekast á stjórnarskrána. Engu að síður (Gripið fram í.) gerðu menn þetta ekki. Menn þurfa því að fara yfir það núna hver staðan er með EES-samninginn og hvernig við ætlum að halda þessum málum áfram.

Þurfum við að gera ráðstafanir í stjórnarskránni núna til þess að hann rúmist með óyggjandi hætti innan hennar? Ef menn vilja halda EES-samningnum þá verða menn að gera það. Menn geta ekki sagt: Við ætlum ekki að breyta stjórnarskránni, við ætlum áfram að hafa þessa óvissu, bara hvenær sem er þegar við rekumst á stjórnarskrána að meta hvort það sé lítils háttar eða meiri háttar. Það er bara ekki í boði að mínu viti. Þeir sem vilja halda EES-samningnum verða að fallast á að gera verði að minnsta kosti lágmarksbreytingar á stjórnarskránni þannig að hann rúmist þar innan. Menn geta síðan deilt um það hvort þeir vilji ganga svo langt að allar framtíðarbreytingar á EES-samningnum rúmist þar inni eða ekki, það má deila um það en ekki hitt.

Flokkur hæstv. utanríkisráðherra segir hins vegar: Við viljum hverfa frá EES-samningnum af því að við viljum ganga inn í Evrópusambandið. Það er annað sjónarmið í málinu. En það er ekki þannig að meðal þjóðarinnar sé ríkur stuðningur við það í augnablikinu að minnsta kosti. Þess vegna kalla ég eftir þessari umræðu um EES-samninginn. Af því að það er væntanlega hin leiðin. Þeir sem ekki vilja fara í Evrópusambandið vilja væntanlega flestir hverjir halda EES-samningnum. Hvernig á að þróa hann, hvernig á að þróa stofnanakerfið? Á að fara þá leið sem formaður Sjálfstæðisflokksins talaði um, að það ætti bara að berja í borðið og segja: Við erum hér með tveggja stoða lausnina og hún skal bara blíva? Það má reyna það, það má byrja á því, ég er ekki viss um að það dugi lengi. Eða þurfum við að gera ráðstafanir til þess að samningurinn geti þróast á grundvelli gildandi stjórnarskrár?

Frú forseti. Tími minn er því miður búinn þannig að ég verð að ljúka máli mínu en ég hef miklu meira um þetta mál að segja.