141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[14:23]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Málið með makrílinn og sjávarútvegsmálin er að viðræður Íslands, Evrópusambandsins, Noregs, Rússlands og Færeyja um makrílinn er að sjálfsögðu ekki hluti af regluverki Evrópusambandsins. Það er ekki hluti af þessu svokallaða „acquis“, ekki hluti af því sem samið er um í aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Að því leyti til eru málin óskyld og þess vegna hafa margir, eins og Barroso á téðum fundi, haldið nákvæmlega því sjónarmiði fram.

Á hitt er að líta, sem ég hygg að hæstv. utanríkisráðherra hafi líka sagt, að málin tengjast huglægt og makrílmálið svífur dálítið yfir vatni. Við hv. þingmenn höfum upplifað það á fundum sem við höfum átt með þingmönnum, sem hafa komið hingað eða við hitt erlendis og rætt þau mál við, að formlega séð séu málin ekki tengd en þau tengjast. Ég hef til dæmis eftir samtöl mín við kollega mína í norska Stórþinginu, líka í ýmsum Evrópuríkjum en ekki síst eftir samtöl mín við Norðmenn, komist að þeirri niðurstöðu að makríldeilan verði ekki leyst á yfirstandandi kjörtímabili norska Stórþingsins, ekki fyrr en eftir myndun ríkisstjórnar þar í haust. Það er mín skoðun núna eftir samtöl við ýmsa á vettvangi Evrópusambandsins að það sé óraunsætt að reikna með að sjávarútvegsviðræðurnar þar klárist eða byrji í raun og veru fyrr en eftir lausn þessa máls. Það er mitt mat á stöðunni en mér gæti skjátlast í því.

Varðandi tveggja stoða lausnina segir hv. þingmaður að hugur þeirra hafi verið við inngöngu í Evrópusambandið. Málið er að ferli EES-málsins hefur verið óbreytt árum saman. Var hugur (Forseti hringir.) ráðherra Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks hér á árum áður þá líka við inngöngu í Evrópusambandið þegar menn fóru nákvæmlega eins fram með EES-málið?