141. löggjafarþing — 81. fundur,  14. feb. 2013.

utanríkis- og alþjóðamál.

593. mál
[14:26]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég get alla vega sagt að þegar ég kom sem aðstoðarmaður utanríkisráðherra í utanríkisráðuneytið 2006 — og ég horfi hér á forvera minn í því starfi, Illuga Gunnarsson, sem hafði verið aðstoðarmaður utanríkisráðherra frá 2005 til 2006 og ég og hv. þingmaður höfum rætt þetta, — kom það mér mjög mikið á óvart þegar ég fór að sækja utanríkisráðherrafundi bæði í EFTA og EES varðandi EES-samstarfið hversu mikill velvilji var Evrópusambandsmegin gagnvart EES-samningnum. Ég hafði heyrt í utanríkisráðherrum, vissulega í ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks en við munum hverjir fóru með ráðuneyti utanríkismála á þeim tíma, við höfðum heyrt einmitt þessa möntru, eins og ég vil leyfa mér að kalla hana, um (Forseti hringir.) að EES-samningurinn væri kominn að fótum fram. Ég trúi því ekki eftir að hafa upplifað það sjálf og ég trúi því að við getum barið í borðið (Forseti hringir.) og náð betri samningi varðandi EES-samstarfið. Ég ætla að fá að koma að makríldeilunni á eftir í ræðu minni.